Hrun íslenska bankakerfisins árið 2008 var ekki aðeins efnahagslegt áfall. Það olli ekki síður streitu í þeirri pólitísku sjálfsmynd sem þróast hafði í landinu frá því í sjálfstæðisbaráttunni á nítjándu öld og hafði mótast fram eftir...
moreHrun íslenska bankakerfisins árið 2008 var ekki aðeins efnahagslegt áfall. Það olli ekki síður streitu í þeirri pólitísku sjálfsmynd sem þróast hafði í landinu frá því í sjálfstæðisbaráttunni á nítjándu öld og hafði mótast fram eftir tuttugustu öldinni og svo endurmótast á bóluárunum fyrir Hrun. Sú innri streita magnaði meðal annars upp þá efnahagslegu og pólitísku erfiðleika sem Íslendingar upplifðu þessa dramatísku októberdaga 2008, þegar gjörvöll heimspressan flutti stöðugar fréttir af sögulegu fjármálafalli landsins. En Hrunið var auk annars viðamesti fjölmiðlaatburður sem Ísland hafði lifað.
Áfallið á Íslandi haustið 2008 er talið einstaklega áhugavert á heimsvísu því það var viðameira og skyndilegra en víðast annars staðar. Þekking á atburðunum hér er hins vegar af skornum skammti, eins og sést í nokkrum lífseigum en efnislega röngum goðsögnum sem hafa lifað um Íslandshrunið í alþjóðapressunni. Eitt það áhugaverðasta við Íslandshrunið er að hér urðu viðbrögðin við krísunni öndverð við viðleitni alþjóðasamfélagsins þar sem áhersla var víðast hvar lögð á að bjarga bankakerfinu. Bankahrunið á Íslandi og viðbrögð íslenskra stjórnvalda ógnaði þeirri viðleitni sem skýrir að hluta óhemju harkaleg viðbrögð erlendra ríkja í okkar garð, til að mynda beitingu hryðjuverkalaganna í Bretlandi. Í seinni tíð hafa fleiri ríki hins vegar kosið að fara ‘íslensku leiðina’ eins og að hluta til var gert á Kýpur. Íslandskrísan opinberaði einnig alvarlegan kerfisgalla í fjármálakerfi Evrópu sem hér mun tekinn til skoðunar.
Djúpstæðar efnahagskreppur vekja gjarnan upp tækifæri og rými til að endurskoða hagkerfið og þjóðskipulagið í heild. Þá takast iðulega á öfl sem krefjast breytinga og þau sem vilja viðhalda ríkjandi ástandi. Á Íslandi urðu þessir þræðir einstaklega skýrir. Hér greip enn fremur um sig það sem kalla má „ný gagnrýnin skipan“ (e. New critical order) þar sem flestöll tilboð um pólitíska endurskipulagningu lentu í hakkavél innanlandsátaka. Efnahagsleg endurreisn hefur hins vegar náð að skjóta rótum, þótt viðkvæm sé. Enn er þó óleystur alvarlegur kerfisbundinn galli í uppbyggingu íslensks efnahagslífs.
Til þess að ná utan um þessa magnþrungnu atburði þarf að beita samfléttaðri efnahagslegri, sagnfræðilegri og stjórnmálafræðilegri nálgun. Út frá slíku margvíðu sjónarhorni er í þessari grein rakið hvernig Ísland birtist í alþjóðlegum viðskiptaheimi og hvernig hrunið hafði áhrif langt út fyrir landsteinana. Kafað er ofan í grundvöll íslenskra stjórnmála og efnahagslífs og gerð tilraun til þess að greina djúpstæð lögmál þeirra en í bakgrunni eru þó mun stærri spurningar um hagkerfi þjóðríkja í alþjóðavæddum heimi.
Hér er sett fram sú kenning að íslensk stjórnmál grundvallist enn á pólitískri sjálfsmynd þjóðarinnar sem mótaðist í sjálfstæðisbaráttunni og felur í sér tvíþætta áherslu; annars vegar á formlegt fullveldi landsins en einnig þá ósk að Ísland verði nútímavætt ríki á pari við önnur vestræn lýðræðisríki (sjá nánar í Eiríkur Bergmann, 2014a). Þessi pólitíska sjálfsmynd þjóðarinnar hefur verið ráðandi í bæði utanríkis- og efnahagsstefnu landsins og skipt sköpum fyrir efnahagslega þróun í landinu (Eirikur Bergmann, 2011).
Hér verður farið ofan í áhrif þessarar pólitísku sjálfsmyndar í aðdraganda Hrunsins, viðbrögðum við því og eftirmála. Á þessum grunni er farið yfir hagsögu Íslands og greint hvað veldur meiri hagsveiflum á Íslandi en í öðrum vestrænum ríkjum. auk þess sem dreginn er lærdómur fyrir önnur ríki og almennt fyrir efnahagskerfi heimsins (ítarlegri útlistun í Eirikur Bergmann, 2014b).