Pierre Corneille
Pierre Corneille (6. júní 1606 – 1. október 1684) var franskt leikskáld og eitt af „stóru leikskáldunum þremur“ í Frakklandi á 17. öld ásamt Moliére og Jean Racine. Hann hefur verið kallaður faðir franska harmleiksins. 1634 fékk hann stöðu leikskálds hjá Richelieu kardinála en skömmu síðar hætti hann þar sem honum þótti kröfur kardinálans of strangar. 1635 var fyrsti harmleikurinn hans, Medea, settur upp. Ári síðar var þekktasti harmleikur hans, Le Cid, gefinn út. Verkið varð gríðarlega vinsælt en Franska akademían (sem hafði verið stofnuð árið áður að undirlagi Richelieus) taldi verkið gallað þar sem það fylgdi ekki reglum Aristótelesar um einingu atburðarásar, tíma og staðar. Deilurnar um Le Cid urðu til þess að Corneille hætti um tíma að skrifa. Þegar hann sneri aftur með Hóras 1640 (sem hann tileinkaði Richelieu) hélt hann sig við reglur harmleiksins. 1643 komu svo út Cinna og Polyeuctus. Þessir þrír harmleikir eru ásamt Le Cid kallaðir fjórleikur Corneilles.
Eftir miðjan 5. áratuginn voru vinsældir Corneilles hvað mestar en neikvæð gagnrýni um eitt verka hans fékk hann til að hætta skrifum aftur árið 1652. 1659 sneri hann aftur en síðari verk hans náðu ekki sömu vinsældum og þau fyrri.