Fara í innihald

Lög

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lagasafn Jersey í Ermarsundi.

Lög í samfélagi manna eru þær reglur sem leyfa eða banna ákveðna hegðun eða mæla fyrir um það hvernig samskiptum milli einstaklinga og annarra lögaðila skuli háttað. Lögin eiga að tryggja að í meðferð yfirvalda ríki jafnræði á meðal fólks og þau mæla stundum fyrir um refsingar til handa þeim sem brjóta á viðurkenndum hegðunarreglum samfélagsins. Lög eru sett af löggjafa, sem getur eftir atvikum verið ríki, hérað eða sveitarfélag, og eiga að byggjast á meginreglum laga[1] og vera í samræmi við stjórnskipunarrétt og stjórnarskrá í viðkomandi ríki.[2] Lög geta verið munnlegur venjuréttur eða rituð í lögbækur. Lög eru ekki einu réttarheimildir sem koma við sögu í dómsmálum þar sem tekið er tillit til dómaframkvæmdar og fordæma auk reglugerða sem hafa þann tilgang að útfæra lög frekar.[3]

Sérlög eru lög með afmarkað gildissvið. Almenna reglan er að sérlög hafi forgang fram yfir almenn lög þar sem þau eru sértækari.[4] Bráðabirgðalög eru lög sem ætlað er að gilda aðeins í skamman tíma, til dæmis á milli þess sem löggjafinn kemur saman.[5] Herlög og neyðarlög eru lög sem sett eru til að bregðast við neyðarástandi eins og borgarastyrjöld eða náttúruhamförum og er líka ætlað að gilda í takmarkaðan tíma.[6] Alþjóðalög eru reglur sem byggjast á hefðum í alþjóðasamskiptum og alþjóðasamningum. Dæmi um alþjóðalög eru alþjóðlegur hafréttur.[7] Trúarréttur eru lög sem varða iðkun trúarbragða, eins og kirkjuréttur í kristni og sjaríalög í íslam.

Kínversk stjórnmálastefna sem byggir á að nota lög við stjórnun ríkis (bókstafshlýðni) kemur frá tíma hinna þúsund heimspekinga í Kína, helstu mótbárur gegn því að nota lög til að stjórna ríkinu komu frá fylgismönnum Konfúsíusar sem álitu hefðir sterkari undirstöðu allsherjarreglu en lög. Síðar varð konfúsíusarhyggja ríkjandi í Kína allt til valdatöku maóista á 20. öldinni.

Víðast hvar er útgáfu laga háttað þannig að þau sem lögin eiga við um hafi aðgang að þeim. Oft eru lögin birt á prenti í einhvers konar lögbirtingablaði sem löggjafinn gefur út. Oft eru lögin líka gefin út í prentuðum bókaröðum, lagasafni, þar sem lög eru flokkuð eftir efni, til dæmis í einkarétt, sifjarétt, refsirétt, stjórnlagarétt o.s.frv. Slík lagasöfn hafa tilhneigingu til að verða mjög stór með tímanum.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Baldur S. Blöndal (20.7.2022). „Hvað eru meginreglur laga?“. Vísindavefurinn.
  2. Árni Helgason (23.12.2004). „Hvaða lagaheimild mælir fyrir að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum?“. Vísindavefurinn.
  3. Magnús Viðar Skúlason (16.4.2021). „Geta reglugerðir stangast á við lög? Hvort gildir þá reglugerðin eða lögin?“. Vísindavefurinn.
  4. Baldur S. Blöndal (7.5.2021). „Hvaða lög teljast almenn lög og standa sérlög þeim alltaf framar?“. Vísindavefurinn.
  5. Magnús Viðar Skúlason (15.3.2017). „Hvernig verða lög til?“. Vísindavefurinn.
  6. Árni Helgason (5.10.2009). „Hver er munurinn á herlögum og neyðarlögum?“. Vísindavefurinn.
  7. Árni Helgason (5.5.2009). „Hvaða lög gilda á úthafinu?“. Vísindavefurinn.
  Þessi lögfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.