Fara í innihald

Konfúsíus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Konfúsíus (kínv. Kongzi 孔子) (551 f.Kr. – 479 f.Kr.) var kínverskur heimspekingur sem hafði gífurleg áhrif á menningu Kína og nágrannalanda. Hann bjó í Lu-ríki á austurströnd Kína sem nú er Shandong-hérað. Á tíma Konfúsíusar tók að bera á alvarlegum brestum í Zhou-keisaraveldinu sem hafði verið við lýði síðan á 11. öld f.Kr. Valdabarátta upphófst á milli fursta og hertoga smærri svæða innan ríkisins og upplausn keisaraveldisins blasti við. Konfúsíus hafði miklar áhyggjur af þessari þróun. Einkum óttaðist hann að allsherjar siðrof myndi eiga sér stað á meðal almennings sem gæti leitt til borgarastyrjaldar, ofbeldis og ógnarstjórna. Segja má að heimspeki hans sé tilraun til að stemma stigu við slíkri þróun.

Konfúsíus var hefðarsinni. Hann leit svo á að samfélaginu væri best farið að treysta í sessi þá siði og þær venjur sem höfðu ríkt á blómaskeiði Zhou-veldisins um þremur öldum áður. Í seinni tíð hefur þetta oft verið skilið sem svo að Konfúsíus hafi verið afturhaldssinni sem vildi einfaldlega snúa aftur til fortíðar. Deila má um hvort að þetta sé sanngjarnt mat á heimspeki hans. Í Samræðum Konfúsíusar (kínv. Lunyu 论语), sem er samansafn tilvitnana í Konfúsíus og frásagna af honum sem skráð hafa verið af lærisveinum hans, gefur hann oftsinnis til kynna að siði og venjur verði að laga að aðstæðum. Þessi þáttur er settur fram með enn skýrari hætti af þekktasta eftirmanni Konfúsíusar, Mensíusi. Stöðugt streymi tímans og stöðugar breytingar eru grundvallarforsendur í hugsun konfúsista. Áhersla er því á þróun og framvindu. Hins vegar er leitast við að finna stöðugleika með því að byggja á traustum grundvelli. Þannig segir Konfúsíus að sá geti talist vitur sem færi fram hið nýja með því að rýna í hið forna.

Siðir (kínv. li 礼) er lykilhugtak í hugsun Konfúsíusar. Upphaflega vísar hugtakið til fórnarathafna og tilheyrði Konfúsíus hópi lærdómsmanna sem voru sérfræðingar í þessum athöfnum. Lærdómsmenn þessir kölluðust ru jia 儒家 og hefur það sem kallast konfúsismi á Vesturlöndum gengið undir þessu nafni í Kína. Með Konfúsíusi fékk siðahugtakið mun víðari skírskotun og tók þá að vísa einnig til kurteisi í samskiptum og almennra velsæmisviðmiðana. Siðir eru ekki niðurjörvaðar reglur heldur samfélagsleg viðmið sem verða til í samskiptum manna á milli og eru í stöðugri mótun og aðlögun að aðstæðum. Konfúsíus taldi að samfélag sem byggði á siðum væri farsælla en samfélag sem byggir á lögum og refsingum og því vildi hann draga sem mest úr hinum síðarnefndu. Segja mætti að siðir vinni „innan frá“ en lög og refsingar „utan frá“ og því væru þau ekki líkleg til árangurs þegar til lengri tíma er litið.

Markmið Konfúsíusar var að sannfæra valdhafa um að hrinda heimspeki sinni í framkvæmd. Hann ferðaðist því um í fjölda ára og leitaðist við að fá áheyrn hjá valdhöfum hinna ýmsu ríkja veldisins. Gengu tilraunir þessar brösuglega og lenti Konfúsíus oftar en ekki í lífsháska. Þegar hann var um fimmtugt var honum hins vegar veitt ráðherrastaða í Lu-ríki og gegndi hann þeirri stöðu í nokkur ár með góðum árangri. Spilling innan ríkisins varð hins vegar til þess að hann þurfti að láta af störfum og flýja land. Hann hélt áfram ferðalögum sínum en varð lítið ágengt og sneri aftur í Lu-ríki árið 484, þá 67 ára að aldri. Þar eyddi hann síðustu ævidögum sínum við kennslu og hugsanlega ritstörf þar til hann lést fjórum árum síðar.

Varla verða áhrif Konfúsisma eða Konfúsíusarhyggju ofmetin. Á 1. öld e.Kr. var konfúsísk heimspeki (konfúsíusismi) gerð að opinberri hugmyndafræði kínverska keisaraveldisins og gegndi hún því hlutverki allt þar til síðasta keisaraveldið féll árið 1911. Kínversk menning væri í dag allt önnur án þeirra áhrifa sem konfúsísk hugsun hefur haft á hana í rás sögunnar. Hin gífurlegu áhrif sem Kína hafði á nágrannaríki sín allt fram á 19. öld hafa einnig gert að verkum að þjóðir á borð við Japan, Kóreu, Víetnam og Singapore eru að mjög miklu leyti mótaðar af konfúsískri hugsun. Hugsun þessi er margþætt og hefur þróast til að verða nokkuð önnur en sú sem Konfúsíus setti fram fyrir meira en 2500 árum, en samkvæmni hennar er þó glettilega mikil og Samræður Konfúsíusar, sem til eru á íslensku í þýðingu Ragnars Baldurssonar, eru konfúsískum hugsuðum enn ein mikilvægasta uppspretta nýstárlegra hugmynda.

  • „Hver var hinn kínverski Konfúsíus og hvað er konfúsismi?“. Vísindavefurinn.