Fara í innihald

Fonograf

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Auglýsing fyrir fonograf sem birtist í tímaritinu Bjarka á Seyðisfirði 29. ágúst 1902

Fonograf, málvélakefli eða hljóðriti er tæki sem notað var til að taka upp hljóð á vaxrúllu, varðveita það og spila seinna. Seinna var farið að móta hljómplötur í vax með nál sem látin var tifa eftir hljóðbylgjum sem bárust um trekt og síðar steyptar í harða lakkblöndu. Fonograf var undanfari plötuspilara og upptökutækja.

Í ársbyrjun 1889 er þessi klausa um fonograf í Skírni:

„Hinn nafnkunni Edison hefur árið 1888 fundið tvær vélar Fonograf (hljóðrita) og Lingua-graf (tungurita). Hljóðritinn tekur við hverju hljóði sem er, mannsrödd, barnsgráti, söng o. s. frv. Hann getur tekið við heilum söngleik og heilli ræðu. Svo er honum lokað og geymist hljóðið þá í honum. Þegar honum er lokið upp, þá heyrist aptur sama hljóðið, ræða, söngur o. s. frv. Ræða Gladstones i Birmingham 5. nóvember 1888 var öll fonograferuð (hljóðrituð). Vísindamenn lofa þessa vél ákaflega mikið og segja, að þess muni ekki langt að bíða, að menn fari að sendast á fonogram (hljóðrit) í stað bréfa, því hljóðgeymirinn innan úr hljóðritanum er miklu minni fyrirferðar en bréf og hann má senda manna á milli, Með þessari vél má stela söng og söngleikjum o. s. frv. og eru menn byrjaðir á því í Ameríku. Margir spá að þessi vél muni valda eins miklum breytingum á viðskiptum manna, eins og fréttaþráðurinn. Tunguritinn er vél á gufuvagninum á járnbrautarlest sem kallar upp hátt nöfn járnbrautarstöðvanna og ýmislegt annað sem farþegar þurfa að heyra. Edison hefur góðar vonir um að þessi vél geti afstýrt járnbrautaslysum. Hún hefur mannsmál, en röddin er tröllaleg.“