Amelia Earhart
Amelia Earhart | |
---|---|
Fædd | 24. júlí 1897 |
Dáin | Í kringum 2. júlí 1937 (lýst látin 5. janúar 1939) Yfir Kyrrahafi |
Störf | Flugmaður |
Maki | George P. Putnam (g. 1931) |
Undirskrift | |
Amelia Earhart (fæddist 24. júlí 1897, tilkynnt látin 5. janúar 1939) var flugmaður sem setti fjölmörg met innan fluggeirans. Hún var fyrst kvenna til að fljúga yfir Atlantshafið og önnur í heiminum til þess að fljúga einsömul yfir það. Hún skrifaði bækur um afrek sín og stofnsetti Samtökin 99 sem voru samtök kvenna með flugmannsréttindi. Hún gerði tilraun til þess að fljúga fyrst kvenna kringum hnöttinn en hún týndist 2. júlí 1937 nálægt Howlandeyju í Kyrrahafinu ásamt siglingafræðingnum Fred Noonan og ekkert hefur spurst til þeirra síðan.
Æska
[breyta | breyta frumkóða]Amelia Earhart fæddist 24. júlí 1897 í Atchison, Kansas í Bandaríkjunum og ólst þar upp að miklu leyti ásamt systur sinni Muriel. Foreldar þeirra voru Amy og Edwin Earhart.[1]
Eftir að Amelia útskrifaðist frá Hyde Park High School árið 1915 fór hún í Ogontz, stúlknaskóla í úthverfi Fíladelfíu. Hún kláraði skólann aldrei því að á öðru árinu ákvað hún fara á námskeið hjá Rauða krossinum og fara að vinna sem sjúkraliði á herspítala í Kanada. Þetta var á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar og því var mikið af slösuðum hermönnum sem þurfti að sinna. Ári seinna innritaði Amelia sig í undirbúning fyrir læknanám í Columbia-háskólanum í New York en lítið varð úr náminu því hún ákvað að flytja til foreldra sinna í Kaliforníu.[2]
Flugáhuginn
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Amelia Earhart var tíu ára sá hún í fyrsta skipti flugvél. Henni þótti ekki mikið til hennar koma, fannst þetta bara vera drasl úr ryðguðum vírum og spýtum. En áratug síðar fór Amelia með vinkonu sinni á flugsýningu og þá kviknaði áhuginn. Árið 1920 fór hún í sína fyrstu flugferð sem átti gjörsamlega eftir að breyta lífi hennar, frá þessari stundu vissi hún að hún yrði að læra að fljúga.[3]
Amelia hóf að taka flugtíma undir leiðsögn flugkonunnar Netu Snook, hún kenndi á „Canuck“ flugvél sem var gömul kanadísk æfingavél.[1] Fljótlega keypti Amelia sína fyrstu flugvél, af gerðinni Kinner Airster. Þetta var tveggja sæta skærgul flugvél sem hún nefndi „Canary“. Þessa flugvél notaði hún til að setja sitt fyrsta met, að vera fyrsta konan til að fara upp í 14.000 fet.[3]
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Atlantshafsflugið
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1928 fékk Amelia símtal þar sem hún var spurð að því hvernig henni litist á að verða fyrsta konan til þess að fljúga yfir Atlantshafið. Hún þurfti ekki að hugsa sig um, sagði strax já, og fór á fund með flugmanninum Wilmer Stultz og aðstoðarflugmanninum Louis E. Gordon ásamt bókaútgefandanum og blaðamanninum George P. Putnam.[3] Amelia var aðeins farþegi í þessu flugi því hún hafði enga reynslu í blindflugi en var fyrsta konan til að fjúga yfir Atlantshafið engu að síður. Vélin sem hópurinn notaðist við var þriggja mótora Fokker vél sem hét „Friendship“. Fljúga átti frá Halifax til Írlands, en margoft þurfti að fresta brottför vegna veðurskilyrða en 18. júní var lagt af stað þrátt fyrir mikla þoku. Lenda þurfti í Wales vegna þess að bensínið var á þrotum en yfir Atlantshafið komst hópurinn samt sem áður.[4]
Amelia fer ein yfir Atlantshafið
[breyta | breyta frumkóða]George Putnam sá til þess að Amelia var á allra vörum eftir flugið yfir Atlantshafið og hún gaf út bókina 20 tímar og 40 mínútur sem fjallaði um flugið og hann sá um að markaðssetja hana. Þau urðu mjög náin við þetta mikla samstarf og á endanum skildi Putnam við konu sína og giftist Ameliu. Í sameiningu fóru þau að skipuleggja ferð Ameliu einnar yfir Atlantshafið. Aðeins einum manni, Lindbergh, hafði tekist fimm árum áður að fljúga einum yfir Atlantshafið og Amelia ætlaði sér að endurtaka leikinn. Amelia flaug 20. maí 1932 á Lockheed Vega vél frá Nýfundnalandi og stefnan var tekin á Bretlandseyjar, en hún viltist af leið og lenti nálægt Londonderry í Norður-Írlandi.[4]
"Hinar níutíuogníu"
[breyta | breyta frumkóða]Amelia var alltaf á ferð og flugi og sló fjölmörg met á Lockheed Vega vélinni og hélt fyrirlestra vítt og breitt um Bandaríkin. Amelia ásamt öðrum flugkonum settu á fót samtök sem þær nefndu "hinar níutíuogníu" og eru samtök kvenkyns flugmanna. Hún var fyrsti forseti samtakana og nafnið er dregið af þeim níutíu og níu konum sem skipuðu samtökin í upphafi.[4]
Hnattflugið
[breyta | breyta frumkóða]Ári seinna fór Amelia að huga að sinni síðustu flugferð. Hún ætlaði að fljúga í kringum jörðina og reyna að fylgja miðbaug eftir bestu getu, þ.e. fara eins langa leið og mögulegt væri. Hún fékk einn besta flugleiðsögumann Bandaríkjanna með sér, Fred Noonan. Flugvélin sem þau notuðust við var af gerðinni Lockheed Elektra, tveggja hreyfla silfurlit vél. 17. mars 1935 gerðu þau sína fyrstu tilraun til flugsins en þegar Amelia var að taka á loft frá Luke Field nærri Pearl Harbor, mistókst flugtakið með þeim afleiðingum að hún missti stjórn á vélinni, undirvagninn féll saman og vélin lenti á maganum. Miklar skemmdir urðu á vélinni en þau sluppu ómeidd.[5]
1. júní 1937 var gerð önnur tilraun, þau höfðu snúið flugáttinni við, þ.e. ákvaðu nú að fljúga í austurátt. Þau lögðu af stað frá Oakland, stefndu austur yfir Bandaríkin til Miami, yfir Brasilíu og Suður-Atlantshaf, þvert yfir Afríku og svo til Karachi, Rangoon, Singapúr, Surabaja, Darwin í Ástralíu og svo Lae í Nýju-Gíneu. Þarna höfðu þau lokið 35.000 km og áttu aðeins 11.000 km eftir en það var allt yfir Kyrrahafið.[6]
Síðasta flugferðin
[breyta | breyta frumkóða]Næsti áfangi var sá erfiðasti ferðarinnar, 4080 km yfir úthafi og enginn hafði reynt það áður. Frá Lae á Nýju-Gíneu til Howlandseyjar sem var pínulítil eyja hálfa gráðu norðan við miðbaug. Hún var aðeins 2,5 km á lengd og tæpur km á breidd og þarna hafði flugvél aldrei lent áður. Þrátt fyrir að vera með einn besta mögulega loftsiglingafræðing yrði ómögulegt að finna eyjuna. Því höfðu þau fengið amerísku strandgæsluna til liðs við sig og þeir höfðu sent snekkjuna Itasca til eyjarinnar, þannig ætluðu þeir að leiðbeina þeim á eyjuna með talstöðvaaðstoð. Allur farangur hafði verið fjarlægður úr vélinni og hún fyllt af bensíni. Í logni myndi flugferðin taka sjötíu klukkustundir. Noonan hafði áætlað að hún tæki 20 stundir en þau höfðu bensín til 24 klukkustunda flugs.[7] Þau lögðu af stað kl. 10 að morgni 2. júlí 1937 frá Nýju-Gíneu. Amelia og Noonan voru í sambandi við Lae á hálftíma fresti í 1900 km, en þá voru þau komin of langt í burtu til að Lae myndi ná skeytunum. Þá urðu þau að reiða sig á hæfni Noonans því margar klukkustundir myndu líða áður en þau næðu sambandi við Itasca. Með nútímatækni væri ekkert mál að fljúga þessa leið, en á þessum tíma var lítil tækni til staðar svo að Noonan þurfti að reiða sig á ýmis kennileiti eins og þorp, fjöll og fljót. Yfir hafinu var þetta enn erfiðara en þá þurfti hann að notast við áttavita, klukku, stjörnurnar og sólina og reikna út frá því sem nákvæmasta staðsetningu. Það má því segja að siglingafræðingar í þá daga hafi aldrei verið alveg vissir um staðsetningu en 10% skekkja þótti ásættanleg.[8]
Amelia gaf skýrslu um gengi þeirra á hálftíma fresti alla leiðina og vonaði að Itasca myndi fljótlega heyra skilaboðin. Áætlaður lendingartími þeirra var kl. 8 um morguninn. Undir morgun heyrðu loftskeytamennirnir á Itasca rödd hennar en miklar truflanir vegna rafeindastorma eyddu merkjum frá henni. Klukkan 6:15 heyrðist rödd Ameliu loksins skiljanlega: „Við erum 160 km frá landi. Gerið svo vel að miða okkur og gefa okkur skýrslu eftir hálftíma. Ég mun tala í hljóðnemann“[9] Eftir þetta yfirtóku truflanir allt og sama hvað loftskeytamennirnir reyndu náðu þeir ekki að miða út vélina. Klukkan 7:47 heyrðist rödd flugkonunnar loksins: „Við hljótum að vera beint yfir ykkur, en sjáum ykkur ekki. Við erum að verða bensínlaus. Höfum ekki getað náð til ykkar með talstöðinni. Við fljúgum nú í 1.000 feta hæð. Gerið svo vel að miða okkur“.[10] Þau sveimuðu í mikilli örvæntingu í leit að lendingarstað, og gátu nokkrum sinnum látið vita af sér. Þau náðu merkjum Itasca en gátu ekki miðað þau út, síðustu skilaboð Ameliu voru að þau flygju í stefnu 157-337 í norður og suður. Þau áttu aðeins hálftíma eldsneyti eftir og sáu ekki í land. Fleira heyrðist ekki frá vélinni.[11]
Loftskeytamenn Itasca reyndu hvað þeir gátu til að ná sambandi við vélina en það þótti orðið ljóst að vélin væri ekki lengur á lofti. Strax hófst mikil leit að þeim með skipum og flugvélum en leitin var erfið þar sem það var ekkert vitað um hve mikið þau voru komin af leið. Stormhviður og yfirvofandi hitabeltisskúrir gerðu leitina erfiða og björgunarflugvélar þurftu að hætta leit. 18. júlí var leitinni hætt en þá hafði verið leitað á 600.000 ferkílómetra svæði án árangurs. Nokkur skeyti bárust eftir að vélin fórst, skeyti um staðsetningu þeirra og þar sem var sagt að þau væru alveg að sökkva. En í ljós kom að skeytin voru öll áreiðanlega tilbúningur einhverra óprúttinna aðila sem voru að gabba.[12]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Amelia Earhart: The Early Years.
- ↑ Amelia Earhart Birthplace Museum: Biography.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 Amelia Earhart, The Official Website: Biography.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 Amelia Earhart: The Celebrity.
- ↑ Amelia Earhart: The Last Flight.
- ↑ Barker: Dularfullu flugslysin, bls. 7.
- ↑ Barker: Dularfullu flugslysin, bls. 8-9.
- ↑ Barker: Dularfullu flugslysin, bls. 11 ; Lifandi Vísindi: Síðasta flugferð Amelíu Earharts, bls. 43.
- ↑ Barker: Dularfullu flugslysin, bls. 11.
- ↑ Barker: Dularfullu flugslysin, bls. 13.
- ↑ Barker: Dularfullu flugslysin, bls. 11-13.
- ↑ Barker: Dularfullu flugslysin, bls. 13-16.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Amelia Earhart Birthplace Museum. [Án árs]. Biology. Sótt 26. janúar 2011 af http://www.ameliaearhartmuseum.org/index.html Geymt 28 september 2018 í Wayback Machine
- Amelia Earhart. [Án árs]. The Celebrity. Sótt 28. janúar 2011 af http://ellensplace.net/ae_celb.html
- Amelia Earhart. [Án árs]. The Early Years. Sótt 28. janúar 2011 af http://ellensplace.net/ae_eyrs.html
- Amelia Earhart. [Án árs]. The Last Flight. Sótt 28. janúar 2011 af http://ellensplace.net/ae_lflt.html
- Amelia Earhart, The Official Website. [Án árs]. Biography. Sótt 26. janúar 2011 af http://www.ameliaearhart.com/about/bio.html Geymt 25 maí 2012 í Wayback Machine
- Barker, Ralph. Dularfullu flugslysin. Prentsmiðja Jóns Helgasonar hf., Reykjavík 1967.
- Lifandi vísindi. 2002. Síðasta flugferð Amelíu Earharts. 13:42-45.