Aachen
Aachen | |
---|---|
Sambandsland | Norðurrín-Vestfalía |
Flatarmál | |
• Samtals | 160,85 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 173 m |
Mannfjöldi | |
• Samtals | 249.000 (2.019) |
• Þéttleiki | 1.513/km2 |
Vefsíða | www.aachen.de |
Aachen er borg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með um 250 þúsund íbúa (2019). Hún er vestasta borgin í Þýskalandi. Aachen er þekktust fyrir að vera aðsetur Karlamagnúsar og var sem slík höfuðborg og krýningaborg þýska ríkisins. Karlamagnús hvílir í dómkirkjunni í borginni, sem jafnframt er á heimsminjaskrá UNESCO.
Lega
[breyta | breyta frumkóða]Aachen liggur vestast í sambandslandinu, nokkuð fyrir suðvestan Ruhr-héraðið. Hún er vestasta borg Þýskalands og liggur við hollensku og belgísku landamærin. Næstu borgir eru Köln til austurs (50 km), Maastricht í Hollandi til vesturs (20 km) og Liége í Belgíu til suðvesturs (30 km).
Skjaldarmerki
[breyta | breyta frumkóða]Skjaldarmerki Aachen sýnir svartan örn á gulum grunni. Örninn er tákn um gamla þýska ríkið, enda var Aachen keisaraborg. Örninn er búinn að vera tákn borgarinnar í margar aldir og hefur breyst örlítið með tímanum. Síðustu breytingar áttu sér stað 1980.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Nafnið Aachen er vatnanafn eða árnafn og er dregið af gamla germanska orðinu Ahha eða Ache, sem aftur er dregið af latneska orðinu aqua, sem merkir vatn. Á 8. öld hét bærinn Aquis Villa (Vatnabær). Meintar eru uppsprettur sem lengi hafa verið notaðar við böð og heilsuböð. [1] Aachen heitir öðru nafni á hinum ýmsu tungumálum. Franska: Aix-la-Chapelle. Latína: Aquisgranum. Hollenska: Aken.
Saga Aachen
[breyta | breyta frumkóða]Keisaraborgin
[breyta | breyta frumkóða]Það voru Rómverjar sem fyrstir settust að á núverandi borgarstæði. Þeir fundu lindir sem þeir notuðu fyrir böð. Bærinn sem Rómverjar reistu var þó ekki stór, enda við jaðar Rómaveldis. Rómverjar hurfu í upphafi 5. aldar og settust þá germanir að í bænum, ekki síst frankar. Árið 765 kemur Aachen fyrst við skjöl er Pippin yngri frankakonungur hélt upp á jólin þar og páska árið eftir. Sonur hans, Karlamagnús, lét reisa kastalavirki í Aachen og gerði staðinn að aðalaðsetri sínu. Það með varð Aachen að höfuðborg hins mikla frankaríkis. Karlamagnús varð síðan fyrsti keisari hins mikla ríkis. Hann lét einnig reisa dómkirkjuna. Árið 817 lét Karlamagnús krýna son sinn Lúðvík hinn fróma til meðkonungs í Aachen. Síðan þá hafa rúmlega 30 konungar þýska ríkisins verið krýndir í dómkirkjunni í Aachen og voru margir þeirra seinna krýndir til keisara. Síðasta krýningin í Aachen fór fram 1531 er Ferdinand I var krýndur til konungs. Seinni konungar voru að mestu leyti krýndir í Frankfurt. Margir konunganna og keisaranna hvíla í dómkirkjunni í Aachen. Hún er enn talinn mesta keisaraborg Þýskalands.
Fríborg
[breyta | breyta frumkóða]Friðrik Barbarossa var krýndur til konungs í Aachen 1152. Hann lét gagnpáfann Pascalis III lýsa Karlamagnús heilagan árið 1165. Á næsta ári gerði hann Aachen að fríborg í ríkinu. Borgin fékk skömmu seinna veglega borgarmúra, sem kölluðust Barbarossamúrar. 1248 varð Vilhjálmur frá Hollandi gagnkonungur í þýska ríkinu, meðan Friðrik II var keisari. Vilhjálmur vildi láta krýna sig í Aachen, en borgarbúar lokuðu á hann borgarhliðunum og stóðu fast með Friðriki keisara. Vilhjálmur lét því gera umsátur um borgina. Eftir nokkra mánuði fór honum þó að leiðast þófið og lét gera stíflur í nokkra læki sem runnu í gegnum Aachen. Fyrir vikið hækkaði í þeim vatnið og flæddi út um alla borg. Borgarbúar gáfust loks upp eftir sex mánaða úthald og var Vilhjálmur þá krýndur. Til krýninga konunga voru þrjú ríkisdjásn notuð: Myndabók guðspjallamannanna, Stefánsskrínið (með mold frá Jerúsalem og dreypt með blóði heilags Stefáns) og korði Karlamagnúsar. Þessi ríkisdjásn voru í fyrsta sinn notuð í helgigöngu í Aachen 1349. Síðan þá hefur helgigangan farið fram á sjö ára fresti í Aachen, sem varð ein af mest sóttu pílagrímsstöðum kristninnar í Evrópu.
Siðaskiptin
[breyta | breyta frumkóða]Siðaskiptin gengu hægt fyrir sig í Aachen. Það var ekki fyrr en eftir 1560 að nokkrir íbúar snerust til lúterstrúar. En með tilkomu hollenskra innflytjenda stórjókst hlutfall lúterstrúarmanna í borginni. 1581 voru lúterskir borgarráðsmenn í fyrsta sinn í meirihluta í borgarráðinu. Þá voru sett lög um trúfrelsi í borginni og í raun voru allir sáttir við aðstæður. En keisaranum, Rúdolf II, mislíkaði að keisaraborgin skyldi snúast til lúterstrúar. Hann sjálfur hafði verið krýndur til konungs í Regensburg í Bæjaralandi. Seinasta konungskrýningin í Aachen hafði farið fram 1531. Rúdolf setti ríkisbann á borgina og í kjölfarið varð borgarráð eingöngu skipað kaþólikkum. Þeir stóðu hins vegar andspænis lúterskum íbúum borgarinnar, sem þar voru í miklum meirihluta. Í fyrstu varð ágreiningur lítill, en smájókst með árunum. 1611 voru lúterskar messur bannaðar og lúterstrúarmenn áttu að missa réttindi sín. Þessu gátu borgarbúar ekki unað og gerðu allsherjar uppreisn. Þeir stormuðu í ráðhúsið og handtóku allt borgarráðið. Einnig brutust þeir inn í kaþólskar innréttingar og eyðilögðu ýmislegt þar. Keisarinn krafðist hlýðni af borgarbúum, en hann lést nokkrum mánuðum síðar. Nýr keisari varð Matthías. 1614 sendi hann 16 þúsund manna her undir stjórn Spánverjans Spinola herforingja til Aachen. Þegar herinn birtist við borgarhliðin, urðu borgarbúar svo skelfdir að þeir gáfust upp án þess að einu einasta skoti hafði verið hleypt af. Spinola gekk hart fram gegn lúterstrúarmönnum. Nokkrir voru teknir af lífi, aðrir voru gerðir útlægir. Afleiðingarnar voru þær að kaþólska kirkjan varð einráð í Aachen þar til Frakkar hertóku borgina í upphafi 19. aldar.
Bruninn mikli og friðarsamningar
[breyta | breyta frumkóða]1656 kom eldur upp í bakaríi í borginni. Eldurinn breiddist hratt út og næstu 20 tíma brann nær gjörvöll miðaldaborgin. Opinberar tölur segja til um að 4.664 hús af 5.300 hafi eyðilagst. Þó létust aðeins 17 manns í eldsvoðanum. Í kjölfarið var borgin endurreist sem einn glæsilegasti baðstaður Evrópu. Baðlæknirinn Francois Blondel frá Liége stjórnaði verkinu. Mikið af heldra fólki í Evrópu sótti böðin heim. Þeirra á meðal má nefna Pétur mikla frá Rússlandi og Friðrik mikla konungur Prússlands. Tvisvar fóru fram friðarsamningar í Aachen. 1668 sömdu Frakkar og Spánverjar um frið í fransk-spænska stríðinu en í því hafði Loðvík XIV tekið nokkur landsvæði af spænsku Niðurlöndum. 1748 var aftur samið um frið í Aachen en að þessu sinni í austurríska erfðastríðinu. Stríðið hafði verið nokkurs konar allsherjarstyrjöld í Evrópu og var einnig háð í nýlendum Evrópubúa í Norður-Ameríku og Asíu.
Frakkar
[breyta | breyta frumkóða]Franskur byltingarher þrammaði inn í borgina 1792 og plantaði friðartré á markaðstorginu. Þeir reyndu að koma hugmyndum um frelsi og réttlæti áleiðis. En 1. mars 1793 sigruðu Austurríkismenn Frakka í orrustunni við Aldenhoven og frelsuðu Aachen. Það stóð þó stutt. 22. september sama ár sigruðu Frakkar Austurríkismenn og hertóku borgina á nýjan leik. Að þessu sinni héldu Frakkar borginni og 1797 var hún innlimuð Frakklandi. Napoleon var tíður gestur í Aachen og notaði þá böðin þar óspart. Eitt sinn var meira að segja Jósefína keisaraynja með í för til að njóta baðanna. Sonur Napoleons var skírður í Aachen 1811. Hann lét rífa niður alla borgarmúra og umbreyta ásýnd borgarinnar. Eftir hrakfarir Napoleons í Rússlandi yfirgáfu Frakkar Aachen. 1815 úrskurðaði Vínarfundurinn að Aachen skyldi tilheyra Prússlandi.
Prússar
[breyta | breyta frumkóða]1818, aðeins þremur árum eftir Vínarfundinn, var haldin Aachen-ráðstefnan. Á henni voru fulltrúar Prússlands, Englands, Rússlands og Austurríkis mættir og ræddu þeir um stríðsskaðabæturnar sem Frakkar höfðu verið að greiða eftir Napoleonsstríðin. Þar var ákveðið að fella niður allar eftirstöðvar. Þjóðhöfðingjarnir sjálfir mættu til borgarinnar og sátu minningarguðsþjónustu um orrustuna við Leipzig sem farið hafði fram fimm árum áður. Þetta voru Friðrik Vilhjálmur III frá Prússlandi, Frans I frá Austurríki og Alexander I frá Rússlandi. 1830 var uppreisn meðal borgarbúa. Tilkoma gufuvélarinnar í vefnaðariðnaði í borginni hafði orsakað mikið atvinnuleysi og fátækt. Iðnbyltingin var hafin. 1841 fékk Aachen járnbrautartengingu. Teinarnir urðu að fara yfir Wurmdalinn. Til þess var reist 275 metra löng járnbrautarbrú og þótti þá mikið afrek. Hún er enn elsta þýska járnbrautarbrúin sem enn er í notkun. Íbúafjöldinn fór yfir 100 þúsund árið 1890 og í 150 þúsund 1906.
20. öldin
[breyta | breyta frumkóða]Í lok heimstyrjaldarinnar fyrri hertóku Frakkar og Belgar borgina. Frakkar yfirgáfu Aachen 1920, en Belgar ekki fyrr en á kreppuárinu 1929. Eftir að nasistar náðu völdum í Aachen 1933, reyndu borgarbúar að mótmæla með því að efna til helgigöngu. 800 þús manns tóku þátt í þessari göngu, sem er enn í dag ein mesta fjöldaganga þýskrar sögu. Í upphafi heimstyrjaldarinnar síðari voru 40 þúsund þýskir hermenn staðsettir í Aachen. Þeir tóku þátt í innrásinni í Hollandi. Aachen varð fyrir fimm loftárásum í stríðinu og eyðilagðist um 65% borgarinnar. 1944 létu nasistar rýma borgina að mestu og breyttu henni í vígi. Þeir höfðu á 5.000 manna herliði að skipa. Í október réðust Bandaríkjamenn á borgina og nærsveitir. Þeir náðu ekki að hertaka hana fyrr en eftir tveggja vikna bardaga og var hún þá fyrsta þýska borgin sem féll í hendur bandamanna. Aðeins 11 þús almennir borgarar voru þá eftir í borginni. Strax var hafist handa við að endurreisa Aachen og náði íbúatalan 100 þúsund á ný 1946 en hún var sett í hið nýstofnaða sambandsland Norðurrín-Vestfalíu. Bandaríkjamenn hurfu úr borginni og við tóku breskir og belgískir hermenn. 1950 voru Karlsverðlaunin stofnuð í Aachen, en það eru friðarverðlaun nefnd eftir Karlamagnúsi. Margir þekktir leiðtogar Evrópu hafa hlotið þessi verðlaun, þar á meðal Angela Merkel, Gro Harlem Brundtland, Václav Havel og Jóhannes Páll II páfi.
Íþróttir
[breyta | breyta frumkóða]Í Aachen fór fyrsta alþjóða hestaíþróttin fram árið 1925. Síðan þá hefur hestamót farið fram árlega í borginni. Hér er um stökkmót, göngumót (Dressur) og hestvagnahlaup að ræða, allt í senn. HM 2006 í hestaíþróttum fór fram í Aachen.
Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Alemannia Aachen sem leikur ýmist í 1. eða 2. deild. Besti árangur félagsins er 2. sæti 1969. Liðið hefur þrisvar komist í úrslit bikarkeppninnar, síðast 2004 (tapaði þá fyrir Werder Bremen).
Viðburðir
[breyta | breyta frumkóða]- Karneval er haldið að vori. Einkennandi fyrir hátíðina í Aachen er að þátttakendur eru að mestu í herklæðum en sá siður á uppruna sinn í hernámi Frakka á tímum Napoleons.
- Öcher Bend er heiti á leiktækjahátíð borgarinnar, en skemmtisvæðið nær yfir 40 þúsund m2 svæði. Hátíðin er haldin tvisvar á ári (apríl og ágúst) og lýkur ávallt á flugeldasýningu.
- Jólamarkaður Aachen er einn þriggja stærstu og fegurstu jólamarkaða í Þýskalandi. Hann sækja 50 þús manns daglega á aðventunni, en 1,5 milljóns manns alls.
Vinabæir
[breyta | breyta frumkóða]Aachen viðheldur vinabæjatengslum við nokkrar borgir:
Röð | Vinabær | Land | Síðan |
---|---|---|---|
1 | Reims | Frakklandi | 1967 |
2 | Halifax | Bretlandi | 1979 |
3 | Toledo | Spáni | 1985 |
4 | Ningbo | Kína | 1986 |
5 | Naumburg | Þýskalandi | 1988 |
6 | Arlington | Virginíu, BNA | 1993 |
7 | Höfðaborg | Suður-Afríku | 1999 |
8 | Kostroma | Rússlandi | 2001 |
Frægustu börn borgarinnar
[breyta | breyta frumkóða]- (1890) Walter Hasenclever rithöfundur
Byggingar og kennileiti
[breyta | breyta frumkóða]- Dómkirkjan í Aachen er keisarakirkja Karlamagnúsar. Í kirkjunni hafa rúmlega 30 konungar þýska ríkisins verið krýndir. Karlamagnús og Otto III keisari hvíla í steinkistum í kirkjunni. Kirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO.
- Ráðhúsið í Aachen var reist á 14. öld á lóð gamla kastalans sem Karlamagnús lét reisa (og er horfinn nú). Í húsinu er hinn svokallaði krýningarveislusalur. Þar eru stór málverk sem sýna fræga atburði úr lífi Karlamagnúsar. Á 17. og 18. öld var húsinu breytt í barokk-kastala.
- Marschiertor er heiti á stærstu byggingu gömlu borgarmúranna sem enn stendur í dag. Hliðið er reyndar með allra stærstu borgarhliðum Vestur-Evrópu. Það var reist 1257 og þjónaði þá sem vopnahús. En á síðari árum hefur hliðið verið gistiheimili, geymsla og munaðarleysingahæli. Eftir skemmdir úr seinna stríðinu var gert við hliðið, þannig að úr varð einstaklega falleg bygging. Í vopnasalnum er pláss fyrir 200 manns í sæti og er hann notaður fyrir ýmsa viðburði.
- Frankenberg er forn kastali sem menn töldu að Karlamagnús hafi látið reisa. En hann mun vera frá 13. öld og var aðsetur greifanna þar. Greifinn Adam III barðist með Hollendingum í sjálfstæðisstríði þeirra gegn Spánverjum á 17. öld og því réðust Spánverjar á virkið og eyðilögðu það að hluta. Það var endurreist 1661 en á 18. öld var það mannlaust og grotnaði niður. Í upphafi 20. aldar notaði flugvélasmiðurinn Hugo Junkers frá Münster byggingarnar sem flugvélaverkstæði. Virkið eyðilagðist að nýju að hluta í loftárásum seinna stríðsins. 1971 var lappað upp á nokkra hluta þess og þjónar í dag sem sögusafn.
Myndasafn
[breyta | breyta frumkóða]-
Dómkirkjan
-
Ráðhúsið í Aachen
-
Marschiertor
-
Frankenberg-kastalinn
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Borgin Aachen - (þýska og að hluta til á ensku)
- Mynd af Aachen Geymt 27 september 2007 í Wayback Machine tekin með Google Earth
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 29.