Fara í innihald

Varnarþing

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Varnarþing er sú svæðislögsaga sem sækja má hinn stefnda til sakar fyrir dómstól er hefur lögsögu til að dæma málið. Það skiptir höfuðmáli í tilviki málareksturs fyrir svæðisbundnum dómstólum, svo sem héraðsdómstólum Íslands, að valið sé rétt varnarþing. Varnarþing æðri dómstiga og sérdómstóla á Íslandi ná yfir allt Ísland. Eingöngu skiptir máli hvort varnarþingið var rétt þegar málið var höfðað upphaflega.

Helsti tilgangur varnarþinga er fyrst og fremst að vernda réttindi hins stefnda með því að veita stefnanda ekki algjört forræði á því hvaða dómstóll afgreiðir málið. Helsta varnarþingið er heimilisvarnarþing en það er staðsett hvar sem einhver þeirra stefndu eiga lögheimili, hafa fasta búsetu, hafa dvalarstað, og þvíumlíkt. Svo eru ýmsar aðrar tegundir varnarþinga sem fara aðallega eftir því sem viðkomandi er sakaður um, svo sem staðsetningu hins meinta brots, og er mismunandi hvort slíkt er til hagsbóta fyrir hinn stefnda og/eða stefnanda.

Varnarþing geta skipst niður í ‚dómþinghár‘ en það er gert þegar til staðar er héraðsdómstóll sem afgreiðir mál á tveimur eða fleiri stöðum. Á Íslandi er Héraðsdómi Suðurlands skipt í tvö svæði þar sem dómstóllinn hefur aukalega viðveru á Vestmannaeyjum er nær yfir þær eyjar, en mál annars staðar á svæðinu eru rekin á Selfossi.

Samningsheimildarreglan svokallaða gerir málsaðilum kleift að semja um varnarþing og leiðir til þess að ef stefndi mætir við þingfestingu og hreyfir ekki andmælum, þá teljist hann hafa samþykkt það. Sé varnarþingið rangt og stefndi mætir ekki eða hann andmælir, þá vísar dómstóllinn málinu frá af sjálfsdáðum.

  Þessi lögfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.