Fara í innihald

Vallhólmur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vallhólmur er flatlendisflæmi í Skagafirði miðjum, myndað af framburði Héraðsvatna en reyndar líka gamall hafsbotn, og afmarkast að mestu af Héraðsvötnum að austan og Húseyjarkvísl og síðan Vindheimamelum að vestan. Norðan við Hólminn tekur Eylendið við en það nafn er reyndar stundum látið ná yfir hann líka.

Hólmurinn er marflatur og sléttur svo að þar sést varla þúfa að undanskildum tveimur hæðum sem rísa upp af sléttunni, Skiphóli og Vallholti. Utan í Vallholti eru tveir samnefndir bæir, Syðra- og Ytra-Vallholt, og þar skammt frá var Vallalaug, sem oft er nefnd í Sturlungu og öðrum fornum heimildum. Af öðrum bæjum í Hólminum má nefna Velli og Löngumýri. Fáeinir bæir í austanverðum Vallhólmi, sem nú eru í eyði, tilheyra Akrahreppi og bendir það til þess að Héraðsvötn hafi áður runnið vestar en nú, a.m.k. á kafla.

Vallhólmur eða Hólmurinn er grösugur og þar var um árabil starfrækt graskögglaverksmiðja sem nú hefur hætt starfsemi. Hólmurinn þykir líka afbragðsgóður skeiðvöllur og þar hefur jafnan verið mikið um hesta.

  • Hallgrímur Jónasson: Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands, 1946.
  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar II. bindi. Staðarhreppur - Seyluhreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2001. ISBN 978-9979-861-10-2