Fara í innihald

Teheran

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Frá Teheran.

Teheran (persneska: تهران Tehrān) er höfuðborg Íran og Teheransýslu. Um 8,7 milljónir búa í borginni sjálfri og 15 milljónir á stórborgarsvæðinu. Teheran er líka fjölmennasta borg Íran og Vestur-Asíu, og með annað stærsta stórborgarsvæði í Mið-Austurlöndum, á eftir Kaíró. Á heimsvísu er Teheran í 24. sæti yfir fjölmennustu þéttbýlissvæði. Teheran er þekkt fyrir hraða útþenslu og nýstárlegan arkitektúr, eins og Milad-turninn og Fereshteh Pasargad-hótelið sem arkitektinn Zaha Hadid hannaði.

Í fornöld stóð medíska borgin Hrages á hluta þess svæðis sem Teheran nær nú yfir. Sú borg var lögð í rúst nokkrum sinnum, í kjölfar innrása Araba, Tyrkja og Mongóla. Ray er nú úthverfi í Teheran.

Teheran var fyrst gerð að höfuðborg í valdatíð Agha Mohammad Khan árið 1786 vegna nálægðar við lönd undir írönskum yfirráðum í Kákasus sem þá voru bitbein Persa og Rússa í stríðum Rússa og Írana. Höfuðborg Persíu hefur oft verið flutt til í tengslum við átök ættarvelda. Teheran er 32. höfuðborg Persíu. Víðtækt niðurrif og enduruppbygging hófst á 3. áratug 20. aldar og alla 20. öld voru miklir fólksflutningar til borgarinnar.

Í Teheran er að finna ýmsa sögulega staði, eins og hallirnar Golestan, Sa'dabad og Niavaran, þar sem tvö síðustu ættarveldi keisaradæmisins höfðust við. Meðal einkennisbygginga í borginni eru Azadi-turn, reistur 1971, í valdatíð Mohammad Reza Shah, í tilefni af 2.500 ára afmæli keisaraveldisins; Milad-turn, sjötti hæsti turn heims; og Tabiat-brú sem var opnuð 2014.

Flestir íbúar borgarinnar eru Persar sem tala persnesku sem móðurmál, en þar búa líka stórir hópar með önnur móðurmál sem tala persnesku sem annað mál. Um 99% íbúa borgarinnar tala og skilja persnesku.

Í Teheran eru alþjóðaflugvöllur (Khomeini-flugvöllur), innanlandsflugvöllur (Mehrabad-flugvöllur), Teheranlestarstöðin, Neðanjarðarlestarkerfi Teheran, hraðvagnakerfi, sporvagnar og umfangsmikið hraðbrautarnet.

Helstu vandamál sem borgin glímir við eru loftmengun og hætta á jarðskjálftum. Vegna þessa hefur komið til tals að flytja höfuðborgina annað. Árið 2016 var Teheran metin í 203. sæti yfir borgir eftir lífsgæðum. Sama ár var borgin líka í topp 10 yfir mest vaxandi ferðamannastaði.

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.