Fara í innihald

Orrustan um Frakkland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Orrustan um Frakkland eða fall Frakklands var innrás Þjóðverja í Frakkland úr Niðurlöndum í seinni heimsstyrjöldinni. Á sex vikum frá 10. maí 1940 tókst Þjóðverjum að sigra hersveitir bandamanna og leggja undir sig Frakkland, Belgíu, Lúxemborg og Holland. Vopnuð átök á vesturvígstöðvum Evrópu enduðu þar með með sigri Þjóðverja þar til bandamenn gerðu innrás í Normandí þann 6. júní 1944. Ítalía gekk einnig inn í stríðið þann 10. júní 1940 á meðan á innrásinni stóð og reyndi að gera innrás í Frakkland úr suðri.[1]

Áætlun Þjóðverja fyrir innrásina skiptist í tvær aðgerðir: Í Fall Gelb („gulu aðgerðinni“) héldu brynvarðar þýskar hersveitir í gegn um Ardennafjöll og síðan meðfram Somme-dalnum og umkringdu þannig heri bandamanna sem höfðu haldið inn í Belgíu til að mæta innrásarhernum. Þjóðverjar ráku breskar, belgískar og franskar herdeildir út að hafinu og neyddu Breta til að flýja með landher sinn og nokkrar franskar herdeildir til Bretlands frá Dunkerque í „Dynamo-aðgerðinni“ svokölluðu.

Eftir undanhald breska hersins hófu Þjóðverjar Fall Rot eða „rauðu aðgerðina“ þann 5. júní. Sextíu herdeildir Frakka sem eftir voru á meginlandinu börðust heiftarlega gegn Þjóðverjum en tókst ekki að vinna bug á innrásarhernum þar sem Þjóðverjar nutu mikilla yfirburða í lofti og bryndeildir þeirra voru mun hreyfanlegri. Þjóðverjum tókst að komast í kringum Maginot-varnarlínuna og ráðast djúpt inn í Frakkland. Þýski herinn hertók París átakalaust þann 14. júní eftir að franska stjórnin var flúin og franski herinn í raun hruninn. Þýskir herforingjar hittu síðan franska embættismenn þann 18. júní og neyddu nýju frönsku ríkisstjórnina að samþykkja vopnahléssáttmála sem jafngiltu í raun skilyrðislausri uppgjöf.

Þann 22. júní var vopnahléssáttmáli undirritaður við Compiègne á milli Frakka og Þjóðverja. Fyrir vikið var Frakklandi skipt upp. Vichy-stjórnin sem Philippe Pétain marskálkur hafði stofnað leysti upp þriðja lýðveldið og Þjóðverjar hertóku norður- og austurhluta Frakklands.[2] Ítalir hertóku lítið svæði í suðausturhluta Frakklands en Vichy-stjórnin fékk áfram að ráða yfir suðurhlutanum sem var kallaður zone libre. Þjóðverjar hertóku frjálsa suðurhlutann í nóvember 1942 þar til bandamenn frelsuðu Frakkland sumarið 1944.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ítalir fóru í stríð með Þjóðverjum kl. 12 í nótt, Morgunblaðið, 133. tölublað (11.06.1940), Blaðsíða 2.
  2. Frakkland hefir tapað stríðinu, Alþýðumaðurinn, 26. Tölublað (26.06.1940), Blaðsíða 1.