Fara í innihald

Norodom Sihanouk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Norodom-ætt Konungur Kambódíu
Norodom-ætt
Norodom Sihanouk
Norodom Sihanouk
នរោត្តម សីហនុ
Ríkisár 24. apríl 19412. mars 1955; 24. september 19937. október 2004
SkírnarnafnNorodom Sihanouk
Fæddur31. október 1922
 Phnom Penh, Kambódíu
Dáinn15. október 2012 (89 ára)
 Peking, Kína
GröfPhnom Penh, Kambódíu
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Norodom Suramarit
Móðir Sisowath Kossamak
DrottningNorodom Monineath
Börn14, þ. á m. Norodom Sihamoni

Norodom Sihanouk, (fæddur 31. október, 1922, lést 15. október 2012) var konungur í Konungsríkinu Kambódíu þar til hann sagði af sér 7. október 2004 frá því hafði hann titilinn „Konungsfaðir (á khmer: Preahmâhaviraksat) Kambódíu“. Eins og venja er með konungsfólk er það persónunafn Sihanouks sem notað er og er hann þekktastur með prinstitillinn viðtengdan. Í Kambódíu er ættarnafnið haft fyrst og er það í samræmi við nafnahefð flestra þjóða í austurhluta Asíu.

Sihanouk gengdi svo mörgum og margvíslegum opinberum stöðum allt frá 1941 að Heimsmetabók Guinness segir hann vera þann stjórnmálamann sem hefur haft margbreytilegastan ferill í ríkisstjórnarstörfum. Þar á meðal var hann tvisvar kóngur, tvisvar þjóðhöfðingi með titilinn prins, einu sinni forseti, tvisvar sinnum forsætisráðherra og einu sinni þjóðhöfðingi án titils. Þar að auki verið í forsæti fyrir útlagastjórn.

Margar af þessum stöðum hafa verið einungis formlegar og án í raun nokkurs valds, til dæmis síðasta tímabilið sem konungur Kambódíu. Norodom Sihanou hafði einungis fullt vald og nánast einræði frá 9. nóvember 1953 (þegar Kambódía fékk fullt sjálfstæði) fram að 18. mars 1970 (þegar honum var steypt af stóli af Lon Nol og fylgismönnum hans).

Sihanouk leikstýrði og skrifað handrit að allmörgum kvikmyndum, skrifaði bækur, samdi sönglög og söng inn allmargar plötur.

Sihanouk var uppalinn í Phnom Penh, þáverandi höfuðborg í frönsku nýlendunni Kambódía. Hann gekk þar í eina skólann sem var starfandi þar, ef burtséð er frá klausturskólum, og fór öll kennsla fram á frönsku. Hann hélt síðan til Saigon í Víetnam í menntaskólanám við „Lycée Chasseloup Laubat“ sem ætlaður var yfirstéttarbörnum Indókína og þar sem einnig var einungis kennt á frönsku. Hann var einnig stuttan tíma við nám í herskóla í Frakklandi. Þegar móðurafi hans, Sisowath Monivong þáverandi konungur Kambódíu, lést í apríl 1941, völdu frönsku nýlenduyfirvöldin að ganga fram hjá föður Sihanouks og þess í stað hann sem konung. Hann var krýndur konungur í september 1941.

Sihanuk þótti á þessum tíma vera spjátrungur og hafa helst áhuga á unaðssemdum lífsins og engan áhuga hafa á stjórnmálum.

Ráðamaður

[breyta | breyta frumkóða]

Það kom þó fljótlega í ljós að Sihanouk reyndist ekki vera allur þar sem Frakkar höfðu haldið hann vera. Í seinni heimsstyrjöldinni hertóku Japanir Kambódíu og raunar alla Suðaustur-Asíu. Formlega hélt Sihanouk titlinum konungur á sama hátt og áður og franska Vichy-stjórnin var formlega nýlendustjóri. Í stríðslok 1945 lýstu Japanir yfir stálfstæði Kambódíu en franska hersveitir lögðu fljótlega undir sig landið að nýju. Hugmyndin um sjálfstæði landsins hafði þó fengið mikinn hljómgrunn og fljótlega fór Sihanouk konungur að styðja þær kröfur og taka forystu í andófi við Frakka. Þetta gerðist samhliða samskonar hreyfingum um allt Indókína, í Víetnam og Laos. Undir forystu Sihanouks tókst landinu að ná sjálfstæði frá Frökkum 9. nóvember 1953. Sihanouk sætti sig ekki við að vera neinn skrautfugl og sagði af sér embætti konungs 2. mars 1955. Faðir hans, Norodom Suramarit, var þá krýndur konungur. Sihanouk tók hinsvega að sér embætti forsætisráðherra. Þegar faðir Sihanouks lést 1960, var hann valinn þjóðhöfðingi í þjóðaratkvæðagreiðslu, en valdi að heldur kalla sig prins en konung eða forseta. Árið 1963 var stjórnarskránni breytt þannig að hann var gerður að þjóðhöfðingja ævilangt og enn með titilinn prins.

Sihanouk ásamt Maó Zedong og öðrum ráðamönnum í Kína. Frá vinstri Mao Zedong, Peng Zhen, Norodom Sihanouk og Liu Shaoqi. Myndin tekin 1956.

Allt eftir því sem Víetnamstríðið magnaðist á sjöunda áratug tuttugustu aldar og allt Indókínasvæðið sogaðist inn í átökin aðlagaðist stjórnarstefna Sihanouks að, í hans augum, viðleitni til að tryggja hlutleysi og fremur öðru öryggi Kambódíu sem sjálfstæðs lands. Að mati Sihanouks þýddi það að standa með nágrannaríkjum sínum. Semma árs 1965 gerði hann samning við kínverska alþýðulýðveldið og Norður-Víetnam sem heimilaði her Norður Víetnam að setja upp herstöðvar í austurhluta Kambódíu og einnig að leifa flutninga á kínverskum hergögnum til Víetnam gegnum Kambódíu. Í staðin keypti kínverska ríkið hrísgrjón frá Kambódíu á uppsprengdu verði. Þrátt fyrir að Sihanouk endurtæki í ræðum sínum á þessum tíma að kommúnisminn myndi sigra og að kenningar maóista væru áhugaverðar þá var hann ekki tilbúinn að hjálpa þeim til valda í Kambódíu. Á árunum 1966 og 1967 lét Sihanouk framkvæma pólitískar hreinsanir og hrakti með því marga vinstrisinna í hendur kommúnista sem tóku upp skæruliðabaráttu gegn stjórninni í Phnom Penh. Það var þá sem Sihanouk skapaði hugtakið Rauðu khmerarnir - Khmer Rouge. Vinátta hans við Kína varð líka öllu óþýðari meðan kínverska menningarbyltingin stóð sem hæst. Samtímis litu Bandaríkin og stuðningslönd þeirra á Sihanouk sem algjöran andstæðing í baráttunni gegn kommúnistum. Bandaríkin hófu sprengjuárásir í smærri stíl í austurhluta Kambódíu þegar 1965 til að reyna að koma í veg fyrir herflutninga Norður-Víetnama. Þrátt fyrir að þessar árásir væru leynilegar stórjukust þær frá 18. mars 1969. Frá 4. október 1965 fram að 15 ágúst 1973 vörpuðu bandarískar herflugvélagar 2,756,941 tonnum af sprengjum yfir landið (til samanburðar má nefna að Bandamenn vörpuðu samanlagt rúmum 2 miljónum tonna af sprengjum í allri seinni heimsstyrljöldinni)[1]. Pólitískur stuðningur við Sihanouk innanlands og erlendis í lok sjöunda áratugsins var því orðin takmarkaður.

Þann 18. mars 1970 var Sihanouk prins í ferðalagi erlendis þegar þegar sitjandi forsætisráðherra, Lon Nol, með aðstoð Bandaríkjanna setti Sihanouk af sem þjóðhöfðingja. Lon Nol fékk nánast alræðisrétt með tilvísun til stríðsástandsins og Khmer Lýðveldið tók við af Konungsríkinu Kambódía.

Eftir valdaránið flúði Sihanouk til Peking og tók að vinna með Rauðu khmerunum og varð opinber stuðningsmaður þeirra í baráttunni við stjórn Lon Nols í Phnom Penh. Sihanouk mætti fljótlega í Kambódíu á þeim svæðum sem Rauðu khmerarnir stjórnuðu og notuðu þeir það óspart í áróðri innan og utanlands. Stuðningur Kambódíumanna við Rauðu khmerarna jókst mjög þegar Sihanouk lýsti yfir stuðningi við þá. Stór hluti þessara nýju stuðningsmanna hafði litla kunnáttu og eða áhuga á kommúnismanum heldur studdu konungin.

Þegar Khmer Lýðveldið féll fyrir hersveitum Rauðu khmeranna í apríl 1975 var Sihanouk gerður að táknrænum þjóðhöfðingja með Pol Pot sem raunverulegum stjórnanda. Ári seinna, 4. apríl 1976, Var Sihanouk neyddur til að segja af sér og var settur í stofufangelsi. Eftir innrás Víetnama 1979 tókst Rauð khmerunum að senda Sihanouk til New York til að flytja ræðu gegn innrás Víetnama. Hann flutti síðan til Kína og bjó einnig nokkur ár í Norður-Kóreu.

Innrás Víetnam inn í Kambódíu í desember 1978 hrökkti stjórn Rauðu kheranna frá höfuðborginni og smám saman frá meirihluta landsins. Þrátt fyrir framgöngu Rauðu kheranna og reynslu Sihanouks af henni, ekki síst gagnvart honum sjálfum og fjölskyldu hans, valdi hann að taka upp samstarf við þá að nýju. árið 1982 tók hann upp formlegt samstarf um baráttu gegn hernámsliði Víetnama. Sihanouk varð forseti útlagastjórnar þriggja aðila, fyrir utan Rauðu kheranna var það flokkur Sihanouks, Funcinpec, og flokkur hægristjórnmálamannsins Son Sann sem nefndur var FPNLF. Útlagastjórnin var nefnd á ensku Coalition Government of Democratic Kampuchea (CGDK).

Stuðningur Bandaríkjanna

[breyta | breyta frumkóða]

Frá miðjum níunda áratugnum og fram á þann tíunda studdu Bandaríkin stuðningsmenn Sihanouks, bæði með fjármagni og hernaðaraðstoð (og þar með óbeint Rauðu khmerana). Þetta í samræmi við kenningu Reagans um hvernig berjast ætti gegn áhrifum Sovétríkjanna.[2]

Konungsríkið endurreist

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir langdregnar samningaviðræður milli útlagastjórnarinnar og stjórnarinnar í Phnom Penh tókst að ná samning um frið í landinu 1991 og var hann undirritaður í París. Rauðu khmerarnir yirgáfu þó samninginn fljótlega. Sihanouk snéri nú aftur til Kambódíu í nóvember 1991 eftir þrettán ára útlegð. Nú sem þjóðhöfðingi án tiils.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu 1993, var konungsríkið endurreist og Sihanouk á nýjan leik orðin konungur Kambódíu. Sihanouk dvalist þó mest erlendis, sérlega í Peking, og bar við slæmri heilsu en samstarfið við Hun Sen og hans menn var ekki hið auðveldasta.

Sihanouk sagði af sér konungstitlinum 7. október 2004 og bar við heilsubresti. Hann lést úr magakrabba 15. október 2012. Einn af sonum Sihanouks, Norodom Sihamoni var valin sem nýr konungur 14. október 2004.

Fjölskyldumál

[breyta | breyta frumkóða]

Sihanouk var formlega giftur sjö sinnum og var fram í andlát formlega giftur fjórum eiginkvennanna (en einungis ein þeirra er drottning) auk þess sem hann hafði aðrar opinberar hjákonur. Með þessum konum eignaðist hann 14 börn sem eru opinberlega kennd við hann. Þar á meðal stjórnmálamanninn Norodom Ranariddh og núverandi kóng í Kambódíu, Norodom Sihamoni. [3] Af þessum 14 börnum voru 6 myrt af Rauðu khmerunum 1975-1976 og ein af eiginkonum Sihanouks.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]