Nguyễn Phú Trọng
Nguyễn Phú Trọng | |
---|---|
Aðalritari Kommúnistaflokks Víetnams | |
Í embætti 19. janúar 2011 – 19. júlí 2024 | |
Forveri | Nông Đức Mạnh |
Eftirmaður | Tô Lâm |
Forseti Víetnams | |
Í embætti 23. október 2018 – 5. apríl 2021 | |
Forsætisráðherra | Nguyễn Xuân Phúc |
Varaforseti | Đặng Thị Ngọc Thịnh |
Forveri | Trần Đại Quang |
Eftirmaður | Nguyễn Xuân Phúc |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 14. apríl 1944 Đông Hội, Đông Anh, franska Indókína (nú Víetnam) |
Látinn | 19. júlí 2024 (80 ára) Hanoí, Víetnam |
Þjóðerni | Víetnamskur |
Stjórnmálaflokkur | Kommúnistaflokkur Víetnams |
Maki | Ngô Thị Mẫn |
Börn | 3 |
Háskóli | Háskólinn í Hanoí Þjóðarstjórnsýsluháskólinn Rússneska vísindaakademían |
Nguyễn Phú Trọng (14. apríl 1944 – 19. júlí 2024) var víetnamskur stjórnmálamaður og aðalritari Kommúnistaflokks Víetnams frá 2011 til dauðadags. Hann var forseti víetnamska þingsins frá 2011 til 2011[1] og var jafnframt forseti Víetnams frá 23. október 2018 til 5. apríl 2021.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Nguyễn Phú Trọng fæddist þann 14. apríl 1944 í bænum Dông Hôi í umdæminu Dông Anh í útjaðri Hanoí. Hann stundaði nám við Þjóðarháskólann í Hanoí og lærði rússnesku undir lok sjötta áratugarins. Hann talar einnig reiprennandi mandarínkínversku.
Trong var kjörinn í miðstjórn og stjórnmálamefnd Kommúnistaflokks Víetnams á 10. flokksþingi hans í apríl árið 2006. Hann var forseti víetnamska þingsins frá 26. júní 2006 til 27. júlí 2011.
Árið 2011, á 11. flokksþingi Kommúnistaflokksins sem haldið var frá 12. til 19. janúar, var Trong kjörinn til að taka við af Nông Đức Mạnh sem aðalritari flokksins.[2][3] Trong heimsótti Barack Obama Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í Washington árið 2015 og var þetta í fyrsta sinn sem leiðtogar Víetnams og Bandaríkjanna áttu formlegan fund frá því að ríkin tóku upp eðlileg stjórnmálasamskipti tveimur áratugum fyrr.[4]
Þann 23. október 2018 var Trong einnig kjörinn forseti Víetnams af víetnamska þinginu með 476 atkvæðum af 477. Hann tók við embættinu af Trần Đại Quang, sem hafði látist í embætti mánuði fyrr. Trong varð þar með fyrsti maðurinn til að gegna samtímis embætti flokksleiðtoga og forseta landsins frá því að Hồ Chí Minh lést árið 1969.[5] Trong gegndi embætti forseta Víetnams til ársins 2021 en síðan tók Nguyễn Xuân Phúc við af honum.[6]
Trong bauð sig fram til endurkjörs sem aðalritari Kommúnistaflokksins á 13. flokksþingi hans í janúar 2021. Hann naut þá nokkurrar alþýðuhylli vegna skilvirkra viðbragða stjórnarinnar við Covid-19-faraldrinum, sem leiddi ekki til margra dauðsfalla í Víetnam, og vegna hagvaxtar sem var með hinum mesta á heimsvísu.[7] Trong var endurkjörinn til þriðja kjörtímabils síns þann 31. janúar 2021.[8]
Þann 1. febrúar 2021 hélt Nguyễn Phú Trọng blaðamannafund þar sem hann sagði: „Ég er ekki við sem besta heilsu […] Ég er gamall og hefði gjarnan viljað fá að hvíla mig, en flokksþingið kaus mig og ég mun því sinna skyldu minni með því að beita mér af alefli í þágu flokksins míns.“[9]
Trọng lést þann 19. júlí árið 2024, aðeins einum degi eftir að hann hafði tilkynnt að hann hygðist stíga til hliðar sem aðalritari Kommúnistaflokksins. [10]
Viðurkenningar
[breyta | breyta frumkóða]- 2018: Heiðursdoktorsgráða við Háskólann í Havana.[11]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Nguyễn Phú Trọng, secrétaire général du PCV Geymt 22 janúar 2011 í Wayback Machine, Vietnam+, 19. janúar 2011.
- ↑ Nguyen Phu Trong elected Party General Secretary Geymt 21 janúar 2011 í Wayback Machine, Info.VN, 19. janúar 2011
- ↑ Du 11e Congrès du PCV émane une nouvelle confiance Geymt 22 janúar 2011 í Wayback Machine, Vietnam+, 19. janúar 2011
- ↑ Róbert Jóhannsson (8. júlí 2015). „Leiðtogi Víetnam heimsótti Hvíta húsið“. RÚV. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ Atli Ísleifsson (23. október 2018). „Kjörinn nýr forseti Víetnams“. Vísir. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ Bjarki Sigurðsson (2. mars 2023). „Vo Van Thuong nýr forseti Víetnam“. Vísir. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ Lina Sankari (25. janúar 2021). „Asie. Le Vietnam veut pousser son avantage à l'échelle mondiale“. L'Humanité. Sótt 29-12-2022.
- ↑ „Vietnam retains top leader, shuts Hanoi schools in COVID-19 battle“. Reuters (enska). 31. janúar 2021. Sótt 29. desember 2022.
- ↑ „Vietnam's Congress ends with focus on growth, graft and US-China ties“. South China Morning Post (enska). 1. febrúar 2021. Sótt 29. desember 2022.
- ↑ „Látinn degi eftir að hafa stigið til hliðar“. mbl.is. 19. júlí 2024. Sótt 19. júlí 2024.
- ↑ „Nguyen Phu Trong recibe Doctor Honoris Causa de la Universidad de La Habana“. Cubadebate (spænska). 29-03-2018. Sótt 18-09-2020..