Fara í innihald

Nýja-Kaledónía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nouvelle-Calédonie
Fáni Nýju Kaledóníu Skjaldarmerki Nýju Kaledóníu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Terre de parole, terre de partage
Þjóðsöngur:
Soyons unis, devenons frères
Staðsetning Nýju Kaledóníu
Höfuðborg Nouméa
Opinbert tungumál franska
Stjórnarfar Hjálenda

Forseti
Stjórnarforseti
Sendifulltrúi
Emmanuel Macron
Louis Mapou
Louis Lefranc
Franskt sérumdæmi
 • Innlimun 1853 
 • Handanhafsumdæmi 1946 
 • Sérumdæmi 1999 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
154. sæti
18.576 km²
*
Mannfjöldi
 • Samtals (2014)
 • Þéttleiki byggðar
*. sæti
268.767
14,5/km²
VLF (KMJ) áætl. 2008
 • Samtals 9,28 millj. dala (153. sæti)
 • Á mann 37.700 dalir (28. sæti)
VÞL (2008) 0.869 (77. sæti)
Gjaldmiðill CFP-franki
Tímabelti UTC+11
Þjóðarlén .nc
Landsnúmer ++687
Kort af Nýju-Kaledóníu.

Nýja-Kaledónía (franska: Nouvelle-Calédonie, einnig kallað Kanaky og Le Caillou) er eyjaklasi í Suðvestur-Kyrrahafi, um 1.200 km austan við Ástralíu og 1.500 km norðan við Nýja-Sjáland. Eyjarnar eru undir yfirráðum Frakklands. Stærsta eyjan er Grande Terre, en að auki tilheyra umdæminu margar smærri eyjar og rif. Samtals er stærð þeirra 18.575 km². Íbúar töldust vera 245.580 árið 2009, þar af bjuggu tæplega 100.000 í höfuðborginni Nouméa.

Nýja-Kaledónía var áður svokallað handanhafsumdæmi Frakklands en fékk sérstaka stöðu og meira sjálfræði með svonefndum Nouméa-samningi árið 1998. Ákvæði samningsins gilda til bráðabirgða þar til haldin verður þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort landið skuli lýst sjálfstætt eða vera áfram hluti Frakklands. Atkvæðagreiðsla var haldin um sjálfstæði ríkisins þann 3. nóvember árið 2018 en íbúarnir kusu með 56,4 prósentum atkvæða að vera áfram hluti af Frakklandi.[1] Atkvæðagreiðslur voru aftur haldnar árin 2020 og 2021 en í bæði skiptin höfnuðu kjósendur möguleikanum á að lýsa yfir sjálfstæði.[2][3]

Stjórnsýsluumdæmi

[breyta | breyta frumkóða]

Nýja Kaledónía skiptist í stjórnsýsluumdæmi samkvæmt lögum frá 16. febrúar 1999.

Eyjaklasinn skiptist í þrjú héruð:

Nýja Kaledónía skiptist enn fremur í 33 sveitarfélög. Eitt sveitarfélag, Poya, skiptist milli tveggja héraða. Nyrðri hluti þess með aðalbyggðinni og flestum íbúum er hluti af Norðurhéraði en syðri hlutinn með aðeins 127 íbúa (2009) er í Suðurhéraði.

  Suðurhérað

  1. Thio
  2. Yaté
  3. L'Île-des-Pins
  4. Le Mont-Dore
  5. Nouméa (höfuðborg)
  6. Dumbéa
  7. Païta
  8. Bouloupari
  9. La Foa
  10. Sarraméa
  11. Farino
  12. Moindou
  13. Bourail
  14. Poya (norðurhluti)

  Norðurhérað

  1. Poya (suðurhluti)
  2. Pouembout
  3. Koné (höfuðstaður)
  4. Voh
  5. Kaala-Gomen
  6. Koumac
  7. Poum
  8. Belep
  9. Ouégoa
  10. Pouébo
  11. Hienghène
  12. Touho
  13. Poindimié
  14. Ponérihouen
  15. Houaïlou
  16. Kouaoua
  17. Canala

  Hollustueyjar

  1. Ouvéa
  2. Lifou (höfuðstaður)
  3. Maré

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Nýja Kaledónía er hluti af Sjálandíu sem áður var hluti af risameginlandinu Gondvana en skildi sig frá Ástralíu fyrir 60-85 milljónum ára. Talið er að skilin hafi átt sér stað fyrir 66 milljón árum og Nýju Kaledóníu hafi síðan rekið til austurs þar til hún náði núverandi stað fyrir um 50 milljón árum.

Nýja Kaledónía nær yfir aðaleyjuna, Grande Terre. Norðan við hana eru Belepeyjar og sunnan við hana er Furueyja. Hundrað kílómetrum austar eru Hollustueyjar, sex byggðar eldfjallaeyjar og nokkrar minni eyjar. 550km í norðvestri liggur fjöldi af kóralrifum og minni skerjum sem nefnast Chesterfield-eyjar og 450km í suðaustur af Grande Terre eru Matthew og Hunter-eyjar sem eru óbyggðar eldfjallaeyjar.

Fjallgarður liggur eftir meginlandinu endilöngu. Hæstu fjöll hans eru Mont Panié (1.629 m.y.s.) í norðri og Mont Humboldt (1.618 m.y.s.) í suðaustri. Austurströndin er gróðursæl og á vesturströndinni eru þurrari sléttur sem henta vel til jarðræktar. Stærstur hluti eyjarinnar er þakinn sígrænum skógi en gresjur er að finna á láglendi. Meðfram vesturströndinni er að finna málma á borð við járn og nikkel.

Diahot-á er lengsta á landsins, um 50km að lengd með 248[4] ferkílómetra vatnasvið. Hún rennur út í Harcourt-flóa á norðvesturodda eyjarinnar. Í kringum eyjuna er hringrif, Nýju-Kaledóníurif, sem er næststærsta kóralrif heims, á eftir Belísrifi. Rifið afmarkar stór lón við norður- og suðurodda eyjarinnar Grande Terre.

Ríkjandi loftslag í Nýju Kaledóníu er hitabeltisloftslag með heitri og rakri árstíð (hiti milli 27° og 30°) og þurrari og svalari árstíð (hiti milli 20° og 23°). Úthafsloftslag og staðvindar draga úr raka sem getur náð allt að 80%. Meðalhiti er 23° en kulda- og hitamet eru 2,3° og 39,1°.

Úrkoma er þrisvar sinnum meiri á austurströndinni en vesturströndinni. Vegna El Niño geta komið þurrkatímabil. Hitabeltislægðir og fellibyljir hafa líka áhrif á veðurfar eyjanna. Síðasti fellibylurinn sem gekk yfir Nýju Kaledóníu var Vania í janúar 2011.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Daníel Freyr Birkisson (4. nóvember 2018). „Höfnuðu sjálf­stæði í þjóðar­at­kvæða­greiðslu“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. júní 2022. Sótt 4. nóvember 2018.
  2. Kristján Kristjánsson (13. október 2020). „Íbúar Nýju-Kaledóníu hafna sjálfstæði frá Frakklandi“. DV. Sótt 14. desember 2021.
  3. „Nýja-Kaledónía áfram frönsk“. Fréttablaðið. 12. desember 2021. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. maí 2022. Sótt 14. desember 2021.
  4. „Diahot“, Wikipédia (franska), 12. ágúst 2023, sótt 30. júlí 2024
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.