Morðgáta
Morðgáta (enska: Murder She Wrote) eru bandarískir sakamálaþættir sem voru upphaflega sýndir á sjónvarpsstöðinni CBS frá 1984 til 1996. Þættirnir voru 48 mínútna langir og urðu alls 264 talsins í 12 þáttaröðum með 21-24 þætti hver. Þættirnir snúast um glæpasagnahöfundinn Jessicu Fletcher (leikin af Angelu Lansbury) sem aðstoðar lögreglu við lausn morðmála í skáldaða bænum Cabot Cove í Maine og víðar.
Þættirnir voru fastur liður í sunnudagsdagskrá CBS í meira en áratug og nutu mikilla vinsælda á blómaskeiði sínu, með allt að 25 milljón áhorfendur. Angela Lansbury var 12 sinnum tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir leik sinn og vann þau í 4 skipti, auk þess að vera 12 sinnum tilnefnd til Emmy-verðlauna. Fjórar sjónvarpsmyndir voru gerðar eftir að göngu þáttanna lauk, og tveir tölvuleikir hafa komið út byggðir á þáttunum.