Max Merkel
Max Merkel (7. desember 1918 - 28. nóvember 2006) var austurrískur knattspyrnumaður og þjálfari sem gerði lið sín að landsmeisturum í þremur löndum.
Æskuár og knattspyrnuferill
[breyta | breyta frumkóða]Max Merkel fæddist í Vínarborg og ólst þar upp. Hann svaraði blaðaauglýsingu frá Rapid Vín sem lýsti eftir leikmönnum og þótt hann vildi sjálfur vera framherji, var hann settur í vörnina og lék hann í þeirri stöðu allan sinn feril. Eftir skamma dvöld hjá Rapid færði hann sig um set til Wiener Sport-Club þar sem hann lék næstu árin. Eftir innlimun Austurríkis í Þýskaland varð Merkel einn þeirra Austurríkismanna sem valdir voru í þýska landsliðið og lék hann sinn fyrsta og eina landsleik undir þýsku ríkisfangi árið 1939.
Heimstyrjöldin olli röskun á knattspyrnuferli Merkel. Hann var kvaddur í herinn og lék með knattspyrnuliði þýska hersins á austurvígstöðvunum. Eftir stríð hélt hann aftur til Auturríkis og lék lengst af með Rapid Vín eða frá 1946 og þar til hann lagði skóna á hilluna. Á þeim tíma náði hann einum leik með austurríska landsliðinu. Lið Rapid var á þessum árum afar sigursælt og varð Merkel fjórum sinnum landsmeistari, auk þess að vinna Miðevrópubikarinn.
Þjálfaraferill og efri ár
[breyta | breyta frumkóða]Um leið og Merkel hafði lagt skóna á hilluna sneri hann sér að þjálfun. Hann tók við hollensku félagsliði árið 1954 en ári síðar var honum falin stjórn hollenska landsliðsins sem var ekki hátt skrifað um þær mundir. Undir stjórn Merkel unnu Hollendingar flesta leiki sína, þar á meðal granna sína Þjóðverja í fyrsta sinn í sögunni.
Eftir Hollandsdvölina hélt Merkel stuttlega heim til Austurríkis þar sem hann stýrði Rapid Vín til meistaratitils árið 1957. Þessi glæsta byrjun hins unga þjálfara vakti áhuga liða í Vestur-Þýskalandi. Hann stýrði Borussia Dortmund frá 1958-61 og kom liðinu öllum að óvörum í úrslitaleik um þýska meistaratitilinn síðasta árið, en ekki var búið að stofna þýsku úrvalsdeildina þegar hér var komið sögu.
1860 München frá Bæjaralandi keypti Merkel upp frá Dortmund og fór miklum sögum af launagreiðslum hans þar. Undir hans stjórn fór Münchenarliðið með sigur af hólmi í bikarkeppninni árið 1964, komst í úrslitaleikinn í Evrópukeppni bikarhafa árið eftir og varð svo Þýskalandsmeistari í fyrsta og eina sinn í sögunni. Þrátt fyrir þennan árangur leið ekki nema ár þar til Merkel var látinn fara frá 1860 München eftir að uppúr sauð í leikmannahópnum eftir að liðið féll úr leik í Evrópukeppni meistaraliða gegn Real Madrid á markamun. Mun meðal annars hafa komið til handalögmála milli þjálfarans og aðalmarkvarðar félagsins.
Eftir hið óvirðulega brotthvarf frá 1860 München féllst Merkel á að taka við 1. FC Nürnberg sem var fornfrægt stórveldi í þýska boltanum en hafði átt undir högg að sækja síðustu misserin. Merkel gjörbylti spilamennsku liðsins og leiddi það til meistaratitils árið 1968 á sínu fyrsta heila keppnistímabili. Er það síðasti þýski meistaratitill félagsins til þessa dags. Allt gekk hins vegar á afturfótunum árið eftir. Merkel var látinn taka pokann sinn, þótt opinberlega hefði heilsufarsástæðum verið kennt um og Nürnberg varð fyrsta og eina liðið í sögunni til að falla úr efstu deild sem ríkjandi meistari.
Næst lá leiðin til Spánar þar sem Merkel tók fyrst við liði Sevilla FC en síðar Atlético Madrid frá 1971-73. Þar varð hann bæði bikarmeistari og landsmeistari. Þrátt fyrir góðan árangur innan vallar létu stjórnendur félagsins hann taka pokann sinn eftir viðtal í þýsku blaði þar sem Merkel fór ófögrum orðum um Spánverja. Þetta var ekki í síðasta sinn sem fjálglegar yfirlýsingar og vandræði í mannlegum samskiptum komu Merkel í bobba. Næstu árin stýrði hann ýmsum liðum í Vestur-Þýskalandi og undirritaði m.a. ráðningarsamning sem knattspyrnustjóri Bayern München. Þær fréttir ollu hins vegar hallarbyltingu í leikmannahópnum, sem varð til þess að forseti félagsins þurfti að segja af sér og Merkel fékk greidd laun í tvö ár án þess að stýra liðinu nokkru sinni.
Eftir þjálfunarferilinn gerðist Max Merkel pistlahöfundur um knattspyrnu og vöktu fjörleg og fyndin skrif hans í Der Bild mikla athygli, þótt þau þættu oft einkennast af sleggjudómum frekar en djúpri greiningu. Greinar þessar voru þó ekki allar samdar af Merkel sjálfum heldur skuggahöfundum. Hann varði elliárunum í München þar sem hann lést 87 ára að aldri.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Max Merkel“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. desember 2020.