Fara í innihald

Makaó

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Maká)
中華人民共和國澳門特別行政區
Região Administrativa Especial de Macau da República Popular da China''
Fáni Makaó Skjaldarmerki Makaó
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
義勇軍進行曲
Staðsetning Makaó
Höfuðborg Makaó
Opinbert tungumál kínverska
Stjórnarfar Sérstjórnarhérað

Forsætisráðherra Ho Iat-Seng
Stofnun
 • Stjórn Portúgals 1557 
 • Portúgölsk nýlenda 1. desember 1887 
 • Fullveldisflutningur 20. desember 1999 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

115,3 km²
73,7
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar

682.800
21.340/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 40 millj. dala (115. sæti)
 • Á mann 58.931 dalir (9. sæti)
VÞL (2019) 0.922 (17. sæti)
Gjaldmiðill Makaóísk pataka
Tímabelti UTC+8
Þjóðarlén .mo
Landsnúmer ++853

Makaó (kínverska: 澳门; pinyin: Àomén; portúgalska: Macau) er borg í Kína. Borgin myndar samnefnt sérstjórnarhérað á sama máta og Hong Kong og er staðsett vestan megin við árósa Perlufljóts við Suður-Kínahaf. Hún er bæði minnsta (32,9 km²) og fámennasta (680.000 manns samkvæmt manntali 2020[1]) hérað landsins og þéttbýlasti staður Jarðar.

Makaó var áður portúgölsk nýlenda. Portúgal fékk leyfi frá Mingveldinu árið 1557 til að koma sér þar upp verslunarstað. Portúgal greiddi leigu fyrir landið sem var áfram undir yfirráðum Kína fram til 1887, þegar það var gert að nýlendu með Pekingsamningi Kína og Portúgals. Nýlendan var undir stjórn Portúgals til 1999 þegar fullveldið var flutt til Kína. Makaó hefur síðan verið eitt af sérstjórnarhéruðum Kína, með stjórn- og hagkerfi sem eru aðskilin frá meginlandinu, samkvæmt hugmyndinni um „eitt land, tvö kerfi“. Einstök blanda portúgalskra og kínverskra áhrifa sem sjá má í arkitektúr sögulegrar miðborgar Makaó var skráð á Heimsminjaskrá UNESCO árið 2005.[2]

Upprunalega var Makaó dreifbýll eyjaklasi við ströndina. Landsvæðið er nú orðið að vinsælli ferðamannaborg og miðstöð ferðamennsku í kringum spilavíti. Fjárhættuspilaiðnaðurinn í Makaó er sjö sinnum stærri en í Las Vegas. Borgin er með eina hæstu vergu landsframleiðslu á mann í heimi.[3][4] Hún situr hátt á lista yfir lönd eftir vísitölu um þróun lífsgæða og er í fjórða sæti yfir lönd eftir lífslíkum.[5] Landsvæðið sem Makaó stendur á er mjög þéttbýlt; tveir þriðju hlutar landsins eru á landfyllingum.

Í elstu heimildinni um nafnið Makaó kemur það fyrir sem „Ya/A Ma Gang“ (亞/阿-媽/馬-港) í bréfi frá 20. nóvember 1555. Íbúar trúðu því að sjávargyðjan Matsu (líka nefnd A-Ma) hafi blessað höfnina og kallaði hafið þar í kring „hof A-Ma“.[6] Þegar portúgalskir sæfarar komu fyrst á þennan stað og spurðust fyrir um nafnið héldu íbúarnir að þeir væru að spyrja um hofið og sögðu þeim að það væri „Ma Kok“ (媽閣).[7] Elsta portúgalska útgáfa nafnsins var Amaquão, en það birtist í ýmsum útgáfum þar til Amacão/Amacao og Macão/Macao urðu algengust á 17. öld.[6] Með nýjum stafsetningarlögum í Portúgal 1911 var ákveðið að stafsetja nafnið Macau; en í ensku og öðrum Evrópumálum var áfram algengt að notast við Macao.[8]

Makaóskagi hafði mörg nöfn á kínversku, meðal annars Jing'ao (井澳/鏡澳), Haojing (濠鏡) og Haojing'ao (濠鏡澳).[6][9] Eyjarnar Taipa, Coloane og Hengqin voru nefndar saman Shizimen (十字門). Þessi nöfn urðu síðar Aomen (澳門), Oumún í kantónsku, sem þýðir „flóahlið“ eða „hafnarhlið“, og vísuðu til alls svæðisins.[9]

Makaó

Portúgalar fengu leyfi til verslunar í Makaó árið 1535 og gerðu síðar leigusamning við Kínverja til langs tíma. Nýlendunni var formlega skilað aftur til Kína árið 1999 og hún gerð að sérstjórnarhéraði. Makaó og Hong Kong voru því einu nýlendur Evrópumanna í Kína.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Landakort er skýrir staðsetningu Makaó sérstjórnarhéraðs í Kína
Loftmynd af Makaóskaga.
Kort af héraðinu Zhongshan frá 1954. Makaó er neðst til hægri.
Kort af Makaó.

Makaó er á suðurströnd Kína, 60 km vestan við Hong Kong, á vesturbakka árósa Perlufljóts. Borgin liggur að Suður-Kínahafi í austri og suðri, og næsta borg við hana er Zhuhai í vestri og norðri.[10] Landsvæðið nær yfir Makaóskaga, Taipa og Coloane.[11] Eins kílómetra landræma á eyjunni Hengqin, þar sem Makaóháskóli er staðsettur, tilheyrir líka lögsagnarumdæmi borgarinnar.[12] Hæsti punktur svæðisins er hæðin Coloane Alto, 170,6 metrar yfir sjávarmáli.[13]

Þéttbýlið er mest á Makaóskaga þar sem flestir búa.[14] Skaginn var upphaflega aðskilin hæðótt eyja, sem tengdist smám saman við land þegar sandrif myndaði eiði. Byggingarland hefur vaxið bæði vegna framburðar árinnar og landfyllinga.[15] Makaó hefur þrefaldast að stærð á síðustu öld, frá 10,28 km² seint á 19. öld[16] að 32,9 km² árið 2018.[13]

Cotai eru landfyllingar sem liggja milli eyjanna Taipa og Coloane. Þar eru mörg af nýjustu spilavítunum og hótelunum sem byggð voru eftir 1999.[4] Umfang lögsagnarumdæmisins yfir hafsvæðið í kring var stækkað mikið árið 2015, þegar borgin fékk 85 km² hafsvæði úthlutað frá ríkisráði Kína.[17] Frekari landfyllingar eru í bígerð til að stækka Nýja borgarsvæðið í Makaó.[18] Landsvæðið nær líka yfir hluta manngerðrar eyju sem myndar landamerki undir Hong Kong-Zhuhai-Makaó-brúnni.[13][19]

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Stjórnsýslueiningar í Makaó.

Landsvæði Makaó skiptist í sjö sóknir. Cotai, sem er stórt svæði á landfyllingum milli eyjanna Taipa og Coloane, og svæðin í Nýja borgarsvæðinu eru ekki með neinar sóknir.[13] Sögulega skiptust sóknirnar milli tveggja sveitarfélaga (Makaó og Ilhas) sem báru ábyrgð á þjónustu við íbúa. Sveitarfélögin voru lögð niður árið 2001 og Skrifstofa borgar- og sveitarstjórnarmála tók við hlutverki þeirra.[20]

Sókn/hverfi Kínverska Stærð
(km2)[13]
Sóknir
Nossa Senhora de Fátima 花地瑪堂區 3,2
Santo António 花王堂區 1,1
São Lázaro 望德堂區 0,6
São Lourenço 風順堂區 1,0
(þar á meðal Nýja umdæmið svæði B) 大堂區 (包括新城B區) 3,4
Nossa Senhora do Carmo (þar á meðal Nýja umdæmið svæði E) 嘉模堂區 (包括新城E區) 7,9
São Francisco Xavier 聖方濟各堂區 7,6
Önnur svæði
Cotai 路氹填海區 6,0
Nýja umdæmið svæði A 新城A區 1,4
HZMB Zhuhai-Makaó-höfn 港珠澳大橋珠澳口岸 0,7
Makaóháskóli (Hengqin) 澳門大學 (橫琴校區) 1,0

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Macao Population (2020) - Worldometer“. www.worldometers.info (enska). Afrit af uppruna á 23. desember 2020. Sótt 25. október 2020.
  2. „Historic Centre of Macao“. UNESCO World Heritage Centre. United Nations Educational, Scientific, and Cultural Organization. Sótt 10. apríl 2021.
  3. "GDP per capita, PPP (current international $)", World Development Indicators database“. Afrit af uppruna á 6. október 2014. Sótt 15. september 2014.
  4. 4,0 4,1 Sheng & Gu 2018, bls. 77–78.
  5. „Macau“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Sótt 7. febrúar 2019.
  6. 6,0 6,1 6,2 Wu & Jin 2014.
  7. Hao 2011, bls. 12–13.
  8. „Is it Macau or Macao?“. Visit Macao. 4. september 2019. Afrit af uppruna á 1. mars 2020. Sótt 16. maí 2020.
  9. 9,0 9,1 Hao 2011, bls. 15–16.
  10. Mok & Hoi 2005, bls. 202.
  11. Huang, Ho & Du 2011, bls. 354.
  12. Sheng & Gu 2018, bls. 76.
  13. 13,0 13,1 13,2 13,3 13,4 „Area of parishes“. Cartography and Cadastre Bureau. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. september 2018. Sótt 7. febrúar 2019.
  14. Population By-Census 2016, bls. 10.
  15. Sheng, Tang & Grydehøj 2017, bls. 202–203.
  16. Grydehøj 2015, bls. 102.
  17. Mok & Ng 2015.
  18. Beitler 2019.
  19. „Instalações do posto fronteiriço“ [Border Facilities] (portúgalska). Transport Bureau. Afrit af uppruna á 15. febrúar 2019. Sótt 14. febrúar 2019.
  20. Law No. 9/2018, Creation of the Institute for Municipal Affairs.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.