Fara í innihald

Lázaro Cárdenas

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lázaro Cárdenas
Cárdenas árið 1934.
Forseti Mexíkó
Í embætti
1. desember 1934 – 30. nóvember 1940
ForveriAbelardo L. Rodríguez
EftirmaðurManuel Ávila Camacho
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. maí 1895
Jiquilpan, Michoacán, Mexíkó
Látinn19. október 1970 (75 ára) Mexíkóborg, Mexíkó
StjórnmálaflokkurFlokkur mexíkósku byltingarinnar (PNR)
MakiAmalia Solórzano
BörnCuauhtémoc Cárdenas
StarfHerforingi, stjórnmálamaður

Lázaro Cárdenas del Río (21. maí 1895 – 19. október 1970) var mexíkóskur hershöfðingi og byltingarmaður sem var forseti Mexíkó frá 1934 til 1940.

Cárdenas hefur verið hrósað fyrir að takast að uppfylla fyrirheit mexíkósku byltingarinnar um jöfnuð og samfélagsréttlæti á forsetatíð sinni en hefur einnig verið gagnrýndur fyrir gerræðislega stjórnarhætti og lýðhyggju.[1] Samkvæmt fjölmörgum skoðanakönnunum er Cárdenas vinsælasti forseti Mexíkó á 20. öldinni.[2][3][4]

Lázaro Cárdenas fæddist þann 21. maí árið 1895. Hann var elstur átta barna verslunarhjóna í Jiquilpan í Mexíkó. Hann lauk skólagöngu sinni þegar hann var ellefu ára þar sem engir framhaldsskólar voru í heimahéraði hans. Lázaro las hins vegar mikið og hóf að rita blaðagreinar þegar hann var 16 ára gamall. Átján ára gamall gekk hann í lið með byltingarmönnum í mexíkósku byltingunni og vann sér skjótan frama. Cárdenas varð hershöfðingi í byltingarhernum og var árið 1928 settur fylkisstjóri í heimafylki sínu, Michoacán.[5]

Árið 1929 tók Cárdenas þátt í stofnun Þjóðlega byltingarflokksins (spænska: Partido Nacional Revolucionario eða PNR). Cárdenas var fylkisstjóri í Michoacán til ársins 1931, en þá varð hann innanríkisráðherra í ríkisstjórn Pascuals Ortiz Rubio forseta. Hann varð hermálaráðherra tveimur árum síðar. Cárdenas var kjörinn formaður PNR árið 1930 og árið 1934 var hann kjörinn forseti Mexíkó.[5]

Forsetatíð Cárdenas var tími róttækra umbóta í stjórkerfi og samfélagi Mexíkó. Cárdenas beitti sér fyrir aukinni alþýðumenntun og fyrir róttækum jarðeignarumbótum. Cárdenas hafði hug á að taka upp samyrkjubúskap í Mexíkó en fór að ósk bænda um að halda sig við sjálfseignarbúskap. Cárdenas lét skipta um 45 milljónum ekra af landi á milli smábænda á forsetatíð sinni. Hann lét einnig setja rekstur og eignarhald verksmiðja í hendur verkamanna.[5]

Árið 1938 lét Cárdenas þjóðnýta olíufyrirtæki í eigu Bandaríkjamanna í Mexíkó. Hann afhenti öll mannvirki olíufélaganna nýstofnuðu ríkisfyrirtæki, Petroleos Mexicanos eða Pemex.[6] Þjóðnýtingin var mjög umdeild í Bandaríkjunum og leiddi til hernaðaræsings gegn Mexíkó en ólíkt forverum sínum ákvað Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti að beita ekki hervaldi til að ná fram vilja Bandaríkjanna í Mexíkó. Cárdenas lét einnig þjóðnýta erlend járnbrautarfélög í Mexíkó og aðrar eignir erlendra auðmanna.[5]

Cárdenas studdi lýðveldisstjórn Spánar í spænsku borgarastyrjöldinni og lét senda vopn og birgðir til lýðveldishersins.[7] Stuðningur Mexíkó nægði þó ekki til að koma í veg fyrir að falangistar undir stjórn Francisco Franco tækju völdin á Spáni. Eftir borgarastyrjöldina veitti stjórn Cárdenas fjölda spænskra flóttamanna hæli í Mexíkó. Árið 1936 veitti Cárdenas Lev Trotskíj einnig pólitískt hæli í Mexíkó, ekki síst til að bægja frá sér ásökunum um að hann væri stalínisti.[8]

Á forsetatíð sinni lifði Cárdenas á fábrotinn máta og bjó aldrei í forsetahöllinni í Mexíkóborg. Hann ferðaðist mikið um Mexíkó og lagði sig fram við að rækta náið samband við almenning. Hann stofnaði sér í lagi til náinna sambanda við stéttarfélög bænda og verkamanna og eftirlét þeim veruleg áhrif í ríkisstjórn sinni. Cárdenas kom því einnig til leiðar að áframhaldandi banni var viðhaldið í stjórnarskrá Mexíkó gegn því að forseti landsins mætti bjóða sig fram til endurkjörs. Cárdenas reyndi ekki að halda völdum eftir að kjörtímabili hans lauk árið 1940 og dró sig að mestu til hlés eftir forsetatíð sína. Hann var hermálaráðherra á stjórnarárum eftirmanns síns, Manuels Ávila Camacho, en á þeim tíma gekk Mexíkó inn í seinni heimsstyrjöldina og sendi hermenn til vesturvígstöðvanna til hjálpar bandamönnum.[5]

Eftir forsetatíð sína tjáði Cárdenas sig sjaldan um ríkismálefni en lagði stundum orð í bagga þegar kom að utanríkismálum. Hann lýsti meðal annars yfir stuðningi við byltinguna á Kúbu og fordæmdi tilraunir til að koma Fidel Castro frá völdum. Hann gagnrýndi einnig Bandaríkin opinskátt fyrir Víetnamstríðið og fór fyrir sérstakri nefnd til að tala máli lýðræðisstjórnar Gvatemala eftir valdaránið í Gvatemala 1954.[9] Vegna þessara ummæla hans naut hann virðingar meðal kommúnista þrátt fyrir að telja sjálfan sig ekki einn þeirra og var meðal annars útnefndur forseti svokallaðs heimsfriðarráðs árið 1969.[5]

Sonur Cárdenas, Cuauhtémoc Cárdenas, er einnig þekktur mexíkóskur stjórnmálamaður og var m. a. borgarstjóri Mexíkóborgar frá 1997 til 1999. Cuauhtémoc hefur þrisvar boðið sig fram til forseta Mexíkó og talið er að hann hefði náð kjöri árið 1988 ef ríkisstjórnin hefði ekki beitt kosningasvikum.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Alan Knight, "Lázaro Cárdenas" í Encyclopedia of Latin American History and Culture, 1. bindi, bls. 555. New York: Charles Scribner's Sons 1996.
  2. Marti Batres Guadarrama. „Lázaro Cárdenas, el presidente del pueblo“ (spænska). La Jornada. Sótt 31. júlí 2019.
  3. Rodrigo Ayala. „Quién fue Lázaro Cárdenas y cuáles fueron sus aportaciones“ (spænska). Cultura Colectiva. Sótt 31. júlí 2019.
  4. Carlos Velazquez. „Lázaro Cárdenas, el presidente más popular que ha tenido México“ (spænska). Sinaloa Dossier. Sótt 31. júlí 2019.
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 5,4 5,5 „Cardenas - einn mesti leiðtogi er rómanska Ameríka hefur átt“. Tíminn. 10. október 1970. Sótt 31. júlí 2019.
  6. „Mexiko: Land í olíuvímu“. Lesbók Morgunblaðsins. 27. október 1970. Sótt 31. júlí 2019.
  7. Matesanz, José Antonio. "Casa de España", í Encyclopedia of Mexico, 1. bindi, bls. 205. Chicago: Fitzroy and Dearborn 1997.
  8. Gunther, John. Inside Latin America (1941), bls. 84.
  9. „Alda óvildar í garð USA rís um alla rómönsku Ameríku vegna Guatemala“. Þjóðviljinn. 26. júní 1954. Sótt 31. júlí 2019.
  10. „Ex-President in Mexico Casts new Light on Rigged 1988 Election“. The New York Times.


Fyrirrennari:
Abelardo L. Rodríguez
Forseti Mexíkó
(1. desember 193430. nóvember 1940)
Eftirmaður:
Manuel Ávila Camacho