Fara í innihald

Hans-Adam 2.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Liechtenstein-ætt Fursti Liechtenstein
Liechtenstein-ætt
Hans-Adam 2.
Hans-Adam 2.
Ríkisár 13. nóvember 1989
SkírnarnafnJohannes Adam Ferdinand Alois Josef Maria Marco d'Aviano Pius
Fæddur14. febrúar 1945 (1945-02-14) (79 ára)
 Zürich, Sviss
Konungsfjölskyldan
Faðir Frans Jósef 2.
Móðir Georgina von Wilczek
EiginkonaMarie Kinsky von Wchinitz und Tettau
BörnAlois, Maximilian, Constantin, Tatjana

Hans-Adam 2. (Johannes Adam Ferdinand Alois Josef Maria Marco d'Aviano Pius; f. 14. febrúar 1945) er núverandi furstinn af Liechtenstein. Hann er sonur Frans Jósefs 2. fursta af Liechtenstein (1906–1989) og greifynjunnar Georgínu von Wilczek. Hann ber jafnframt titlana hertogi af Troppau og Jägerndorf og greifi af Rietberg. Hans-Adam er ríkasti erfðaeinvaldur í Evrópu.[1]

Æska og uppvöxtur

[breyta | breyta frumkóða]
Ljósmynd eftir Erling Mandelmann, 1974

Hans-Adam fæddist þann 14. febrúar 1945 í Zürich í Sviss og er elsti sonur Frans Jósefs 2. fursta og Gínu furstynju.[2] Guðfaðir Hans-Adams var Píus 12. páfi. Frans Jósef 2. hafði tekið við furstatigninni árið 1938 eftir andlát barnlauss afabróður síns, Frans 1., og Hans-Adam varð því krónprins ríkisins strax við fæðingu.

Árið 1969 útskrifaðist Hans-Adam frá Háskólanum í St. Gallen með mastersgráðu í viðskipta- og hagfræði.[2]

Árið 1984 fól Frans Jósef 2. syni sínum formlega að fara dagsdaglega með málefni ríkisins í sínu nafni en hélt þó formlega furstatigninni og stöðu þjóðhöfðingjans. Hans-Adam tók formlega við sem fursti eftir andlát föður síns þann 13. nóvember 1989.[3]

Árið 2003 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingar sem Hans-Adam hafði lagt fram til þess að auka pólitísk völd sín. Furstinn hafði hótað að flytja úr landi ef breytingarnar yrðu ekki samþykktar.[4] Breytingarnar voru samþykktar með um 64% atkvæða og með þeim fékk furstinn neitunarvald gegn lagasetningum og vald til þess að breyta stjórn­ar­skránni, skip­a dóm­ara og láta reka rík­is­stjórn­ina ef honum þókn­ast hún ekki.[5]

Þann 15. ágúst 2004 gerði Hans-Adam elsta son sinn, Alois krónprins, að ríkisstjóra til að fara með dagleg völd sín. Hans-Adam er þó enn löglega þjóðhöfðingi landsins.[6]

Í júlí árið 2012 höfnuðu Liechtensteinar í þjóðaratkvæðagreiðslu tillögu um að takmarka völd furstaættarinnar. Nokkrum dögum fyrir atkvæðagreiðsluna hafði Alois krónprins tilkynnt að hann myndi beita neitunarvaldi sínu gegn öllum afléttingum á banni ríkisins við þungunarrofum, sem einnig átti að kjósa um. Kjörsókn hrundi í kjölfarið og 76% þeirra sem kusu í fyrri atkvæðagreiðslunni studdu áframhaldandi neitunarvald furstans gegn niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna.[7] Meðlimir á löggjafarþinginu höfðu áður komið furstanum til varnar þann 23. maí og höfðu kosið með 18 atkvæðum gegn sjö á móti tillögum um að takmarka völd furstans.[8]

Hans-Adam á bankahópinn LGT Group. Fjölskylduauðæfi hans nema um 7,6 milljörðum Bandaríkjadala og persónuleg auðæfi hans um fjórum milljörðum,[9] sem gerir hann einn ríkasta þjóðhöfðingja heims og auðugasta erfðaeinvald Evrópu.[10] Hann á mikið safn listaverka sem er að miklu leyti aðgengilegt almenningi á Liechtenstein-safninu í Vín.

Þann 30. júlí árið 1967 kvæntist Hans-Adam frænku sinni, Marie Aglaë Kinsky von Wchinitz und Tettau greifynju, í dómkirkjunni í Vaduz. Þau eignuðust fjögur börn: Alois krónprins, Maximilían prins, Konstantínus prins og Tatjönu prinsessu.

Furstinn er heiðursmeðlimur í K.D.St.V. Nordgau Prag Stuttgart, bræðralagi kaþólskra stúdenta sem á aðild að sambandi þýskra og kaþólskra stúdentabræðralaga.

Árið 2000 varði furstinn 12 milljónum Bandaríkjadala til að koma á fót Stofnun Liechtenstein um sjálfræði (e. Liechtenstein Institute on Self-determination; LISD) við almennings- og alþjóðamálastofnun Princeton-háskóla.[11][12] Á æskuárum sínum gekk Hans-Adam í ríkisskátafélag Liechtenstein í Vaduz.[13] Hann er jafnframt fyrrum meðlimur í skátahreyfingunni Wien 16-Schotten í Vínarborg[14] og meðlimur í Heimsstofnun skáta.[15]

Hans-Adam hefur skrifað stjórnmálaritgerðina Ríkið á þriðja árþúsundinu (ISBN 9783905881042), sem var birt árið 2009. Í henni færði hann rök fyrir áframhaldandi mikilvægi hins pólitíska hlutverks þjóðríkisins. Umdeilt reyndist þegar hann reyndi að öðlast einkaleyfi á mið-asískum þjóðarréttum sem hafa verið til í mörgþúsund ár, þar á meðal basmati-hrísgrjónum, í gegnum bandaríska einkaleyfisskrifstofu. Furstinn fékk einkaleyfið en lét það af hendi vegna mótmæla frá Indlandi, Bangladess og Pakistan.[heimild vantar][16]

Hans-Adam telur lýðræði hentugasta stjórnarfarið og telur að Kína og Rússland muni smám saman tileinka sér það þótt hann telji að það muni reynast þeim ríkjum erfitt. Hann hefur lýst yfir að hlutverk furstaættarinnar í Liechtenstein sé aðeins lögmætt í ljósi samþykkis þjóðarinnar. Hann telur að ríkisvald ætti aðeins að ná til tiltekinna sviða og hefur skrifað að almenningur verði að „hafa frelsi undan öllum ónauðsynlegum þrautum og byrðum sem hlaðið hefur verið á hann síðustu öldina og hefur dregið athygli ríkisins frá tveimur helstu viðfangsefnum þess: viðhaldi réttarríkisins og utanríkisstefnunni“.[17]

Hans-Adam 2. fursti og María furstynja í opinberri heimsókn í Vín árið 2013.

Í viðtali sem tekið var í nóvember 2010 sagði Hans-Adam að hann sæi ákveðna galla á hlutum stjórnarskrár Bandaríkjanna, þar á meðal skort á beinu lýðræði. Hann sagði einnig: „Ég sit hér og það er því Bandaríkjamenn björguðu okkur í seinni heimsstyrjöldinni og kalda stríðinu. Því er ég þeim afar þakklátur.“

Hans-Adam lagði fram inngang um sjálfræði ríkja í bókinni Sourcebook, on Self-Determination and Self-Administration (ISBN 1-55587-786-9, 1997) og í alfræðiorðabók Princeton-háskóla um málefnið.[18]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Liechtenstein is utterly ridiculous – but that's a big part of its appeal“. Coffee House. 7. október 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 14 júlí 2018. Sótt 30 mars 2021.
  2. 2,0 2,1 „H.S.H. Prince Hans Adam II | Liechtenstein Institute on Self-Determination“. lisd.princeton.edu. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. ágúst 2019. Sótt 8. ágúst 2019.
  3. Pendleton, Devon (26. október 2017). „The Richest Royal in Europe Just Keeps Getting Richer“. www.bloomberg.com. Sótt 8. ágúst 2019.
  4. Liechtenstein prince wins powers BBC News Online, 16. mars 2003. Skoðað 30. mars 2021.
  5. „Hans Adam fursti fær auk­in völd í Liechten­stein“. mbl.is. 17. mars 2003. Sótt 30. mars 2021.
  6. Country profile: Liechtenstein – Leaders BBC News, 6. desember 2006. Skoðað 30. mars 2021.
  7. Foulkes, Imogen. (1. júlí 2012) BBC News – Liechtenstein referendum rejects curbs on royal powers. Bbc.co.uk.
  8. The Prince vs. the 'Paupers' – By Michael Z. Wise Geymt 9 desember 2013 í Wayback Machine. Foreign Policy (29. júní 2012).
  9. Fleck, Fiona (17. mars 2003). „Voters give billionaire prince new powers“. The Daily Telegraph. Sótt 23. október 2009.
  10. Liechtenstein redraws Europe map BBC News Online, 28. desember 2006. Skoðað 31. mars 2021.
  11. Bloom, Molly. (12. desember 2000) Opening of Liechtenstein institute draws international dignitaries. The Daily Princetonian
  12. Liechtenstein Institute on Self-Determination at Princeton University Mission & Outreach: The Liechtenstein Institute (skoðað 30. mars 2021)
  13. Fürst Hans-Adam II. Geymt 23 janúar 2008 í Wayback Machine Skoðað 30. mars 2021.
  14. Brósch-Fohraheim, Eugen (október 2008). „Schwedischer König als Pfadfinder in Wien-Zusammenkunft der "Weltpfadfinderstiftung" in Wien 2008“. 29 Live (þýska): 21.
  15. Seine Majestät Carl XVI Gustaf König von Schweden zu Gast in Wien Geymt 11 desember 2008 í Wayback Machine Skoðað 30. mars 2021.
  16. „India fights US basmati rice patent“.
  17. „H.S.H. Prince Hans-Adam II – The State in the Third Millennium“. Uncommon Knowledge. 22. nóvember 2010. Sótt 2. desember 2010.
  18. „Encyclopedia Princetoniensis: The Princeton Encyclopedia of Self-Determination (PESD) - Liechtenstein Institute on Self-Determination“. lisd.princeton.edu. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. september 2016. Sótt 30. mars 2021.


Fyrirrennari:
Frans Jósef 2.
Fursti Liechtenstein
(13. nóvember 1989 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti