Gnitaheiði
Gnitaheiði var aðsetur Fáfnis sem lá þar á gullinu í ormslíki þar til Sigurður Sigmundsson drap hann og var eftir það nefndur Fáfnisbani.
Bræður nefndust Reginn og Fáfnir. Þeir voru synir Hreiðmars bónda sem fékk óvæntan auð í sonargjöld þegar æsir drápu fyrir honum Otur, sem þá var í oturslíki. Þeir fylltu svo belg hans með gulli sem Loki hafði kúgað út úr dvergnum Andvara. Dvergurinn vildi fá að halda eftir einum gullbaug en Loki gaf sig ekki og fékk bauginn en Andvari lét þá bölvun fylgja að hver sem hann ætti myndi láta líf sitt.
Þennan sjóð fékk Hreiðmar bóndi en synir hans, Reginn og Fáfnir ágirntust gullið og drápu föður sinn. Fáfnir sveik svo Regin, hirti gullið og hélt með það á Gnitaheiði. Þar lúrði hann á gullinu og breyttist í langan, stóran og mikinn orm (sbr. að liggja sem ormur á gulli). Loks tók Reginn til sinna ráða, fóstraði ungan og vaskan kappa og fékk hann til að koma með sér og sigrast á Fáfni. Það var Völsungurinn Sigurður Sigmundsson og hann sigraðist á Fáfni og var eftir það nefndur Fáfnisbani.