Fara í innihald

Gamla Litlabeltisbrúin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Litlabeltisbrúin

Gamla Litlabeltisbrúin er 1,178 km löng og 33 metra há grindarbitabrú yfir Litlabelti í Danmörku. Hún tengir Snoghøj (Fredericia) á Jótlandi við Fjón. Framkvæmdir við hana hófust árið 1925 og brúin var opnuð 14. maí 1935. Upphaflega átti brúin aðeins að vera tveggja spora járnbrautarbrú en eftir því sem umferð bifreiða jókst á 3. áratugnum varð ljóst að vegtenging var líka nauðsynleg. Því var bætt við 6 metra breiðum vegi með gangstétt.

Vaxandi umferð bifreiða á 20. öld varð til þess að brúin varð fljótlega eftir Síðari heimsstyrjöld að alvarlegum flöskuhálsi í vegakerfinu. Milli 1961 og 1965 tvöfaldaðist bílaumferð úr 2,5 milljónum bíla á ári í 5 milljónir og langar biðraðir mynduðust beggja vegna brúarinnar suma daga. Framkvæmdir við Nýju Litlabeltisbrúna hófust árið 1965 og lauk árið 1970.