Franska nýlenduveldið
Franska nýlenduveldið er heiti á þeim nýlendum og yfirráðasvæðum sem lentu undir franskri stjórn frá 17. öld til 1980. Upptök nýlenduveldisins liggja í landkönnunarleiðöngrum Giovanni da Verrazzano og Jacques Cartier og verum franskra sjómanna á Nýfundnalandi á 16. öld. Fyrsta varanlega nýlenda Frakka var Akadía þar sem nú er Nova Scotia í Kanada. Hún var formlega sett á stofn 27. júlí 1605. Þremur árum síðar stofnaði Samuel De Champlain borgina Québec sem varð höfuðstaður Nýja Frakklands. Frakkar stofnuðu líka nýlendur og verslunarstaði í Vestur-Indíum og Austur-Indíum. Franska Austur-Indíafélagið var stofnað árið 1664.
Fljótlega hófust átök við Breska heimsveldið og eftir Frönsku byltinguna náðu Bretar undir sig meirihluta nýlendna Frakka. Napoléon sá að Frakkland gat ekki varið nýlendurnar og seldi því Bandaríkjunum Louisiana árið 1803. Þar með lauk fyrra franska nýlenduveldinu. Það síðara hófst þegar Frakkar lögðu Alsír undir sig árið 1830. Þegar leið á 19. öldina náði Frakkland að leggja undir sig stóra hluta Norður- og Vestur-Afríku, Madagaskar og Indókína í Suðaustur-Asíu. Nýlendan Franska Indókína var stofnuð árið 1887 og Franska Vestur-Afríka árið 1895. Fljótlega eftir Síðari heimsstyrjöld hófu íbúar í þessum nýlendum að berjast fyrir sjálfstæði. Frakkar brugðust við með hörku en varð fljótlega ljóst að staða þeirra var í raun veik. Nýlendurnar fengu sjálfstæði hver á fætur annarri á næstu áratugum. Síðasta nýlenda Frakka sem hlaut sjálfstæði var Vanúatú 30. júlí 1980.