Blákrabbi
Blákrabbi | ||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
(Blákrabbi)
| ||||||||||||||||
Ástand stofns | ||||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||||
| ||||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||||
Callinectes sapidus Rathbun, 1896 |
Blákrabbi (fræðiheiti: Callinectes sapidus) er krabbadýr sem tilheyrir (fræðiheiti: Portunidae) ætt. Hann finnst við strendur Ameríku frá Nova Scotia alveg til Argentínu, hann er einnig algengur í Mexíkóflóa. Hann er botndýr sem getur lifað í fjölbreyttum aðstæðum, allt frá mjög söltum sjó yfir í nánast fersku vatni og er á dýptarbilinu 0-35 m. Hann finnst einstöku sinnum á þurrlendi nálægt sjó.[2]
Útlit og einkenni
[breyta | breyta frumkóða]Búkur blákrabbans er blágrænn út í brúnan. Auðvelt er að aðgreina kyn blákrabbans á lögun kviðsins, kviður kvendýrsins er þríhyrndur eða hringlaga á meðan kviður karldýrsins lítur út eins og T á hvolfi.[3]
Blákrabbi dregur nafn sitt út frá litnum á klónum, en þær eru fallega skærbláar. Fullþroskaður kvenkrabbinn er líka með rauðan lit á enda klónna. Þeir hafa fimm pör leggja, fyrsta parið eru klærnar, þar á eftir koma þrjú pör af leggjum sem þeir ganga á og fimmta parið eru eins konar sundleggir sem líta út eins og blöðkur.[4] Skel blákrabbans getur orðið allt að 25 cm löng og er hún um það bil tvöfalt stærri á breiddina. Hann stækkar frekar hratt fyrsta árið og þegar kynþroska er náð eftir u.þ.b. 12-18 mánuði er skelin orðin 120-170 mm á lengd. Blákrabbinn getur orðið allt að 3-4 ára gamall en meðalaldurinn er 1-2 ár vegna mikillar veiði á honum og það er sjaldan sem þeir ná að deyja á náttúrulegan hátt.[5] Meðalþyngd blákrabbans er kringum 350 grömm en þyngsti blákrabbi sem hefur fundist var í kringum 500 grömm.[6]
Skel á blákröbbum endurnýjar sig, hörð skelin fellur af og undir myndast mjúk skel. Á karldýrinu gerist það oft á lífsleiðinni en hjá kvendýrinu gerist það bara einu sinni og það er rétt áður en kynæxlun á sér stað.[7] Blákrabbinn getur verið mjög árásargjarn ef hann finnur fyrir ógn, nema þegar hann er nýbúin í hamskiptum en þá er skelin of mjúk og hann er nánast varnarlaus en til að verja sig á hann það til að grafa sig í sandinum. Hann er mjög mikill sundkrabbi og getur ferðast mikið yfir daginn, en hann er mest á ferðinni í dagsbirtu.[8]
Æxlun og fæða
[breyta | breyta frumkóða]Þegar æxlun á sér stað setur karlkyns krabbinn kvenkynið í ákveðna stellingu rétt áður en skelin hennar byrjar að endurnýja sig. Karlkrabbinn fer ekki frá henni eftir æxlunina fyrr en að skelin hennar harðnar en er ekki til staðar þegar eggin klekjast út.[9] Karldýrið getur makast mörgum sinnum yfir ævina, en kvendýrið bara einu sinni. Kvendýrið getur hins vegar geymt sæði karldýrsins í hátt yfir 1 ár og notað þau í tvær eða fleiri hrygningar. Þegar eggin eru tilbúin til frjóvgunar u.þ.b. 2-9 mánuðum eftir æxlun, þá býr kvendýrið til eins konar svamp undir kviðnum til að geyma eggin þar til þau eru tilbúin. Þessi svampur inniheldur yfirleitt í kringum 2 milljónir eggja og eru í kringum 14 daga að verða tilbúin til að klekjast út. Kjörhitastig fyrir hrygnun eru 19-29°C og eru líkurnar á að blákrabbi nái kynþroska aldri, 1 á móti milljón.[10]
Æti hjá blákröbbum er mjög fjölbreytt, þeir éta nánast allt sem að munni kemur. Þar má t.d. nefna ostrur, nýlega dauða fiska, hræ af plöntum og dýrum en einnig gæða þeir sér á minni blákröbbum sem eru á mjúkskelja tímabilinu. Stórir fiskar, ýmsir fuglar og skjaldbökur eru þau rándýr sem blákrabbar þurfa að forðast en þar á meðal er mannskepnan sem er að öllum líkindum þeirra versti óvinur.[11] Blákrabbi er talin algert lostæti og er einn langalgengasti krabbinn sem fer á diska hjá Bandaríkjamönnum og Mexíkóbúum. Hann er aðallega soðin eða niðursoðin og er mikilvægt að vinna hann eins fljótt og hægt er eftir að hann er veiddur til að hann sé ætilegur.[12]
Veiði og útbreiðsla
[breyta | breyta frumkóða]Blákrabbi er aðallega veiddur í ferhyrningslaga gildrur með einskonar göngum á hliðunum sem innihalda beitu (aðallega ferskur dauður fiskur eða hænuhausar) til að lokka hann inn í gildrurnar. Hægt er að nota troll og net en það getur verið erfiðara viðfangs. Hann er einnig mikið veiddur til skemmtunar við strendur, þá er auðveldast að nota háf og gera það að næturlagi.[13]
Blákrabbi er einna mest veiddur við strendur Ameríku í vestur Atlantshafi. Hann er veiddur allt frá Nova Scotia niður að Argentínu og einnig við Mexíkóflóa, Hann finnst víða annars staðar en veiðar eru ekki stundaðar þar.
Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar er hann langmest veiddur í Bandaríkjunum og er mjög mikill munur á heildarafla borið saman við hin löndin. Heildarafli hjá Bandaríkjunum á árunum 1950 – 2019 er rétt rúmlega 5 þúsund tonn en hjá Mexíkó var heildaraflinn ekki nema 441 tonn. Hins vegar má sjá að veiðar hafa verið fremur öflugar hjá Bandaríkjunum frá árinu 1950, en veiðar á blákrabba hófust ekki fyrr en árið 1964 í Mexíkó, Kúba og Níkaragva byrjuðu veiðar 1981, og það var ekki fyrr en árið 1989 sem Venesúela byrjar. Hins vegar er ekki hægt að áætla að það sé ástæðan fyrir þessum mun á heildarafla, heldur er að öllum líkindum ástæðan að hlutfallslega séð er erfitt að bera þessi lönd saman við eins stórt svæði og alla vesturströnd Bandaríkjanna.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Collette B and 30 others (2011). „Trichiurus lepturus“. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 2011. Sótt 13. janúar 2012.
- ↑ Bodden, S. (2011). Callinectes sapidus blue crab. Animal Diversity Web. https://animaldiversity.org/accounts/Callinectes_sapidus/
- ↑ Bodden, S. (2011). Callinectes sapidus blue crab. Animal Diversity Web. https://animaldiversity.org/accounts/Callinectes_sapidus/
- ↑ Noaa Fisheries. (e.d.). Blue crab. https://www.fisheries.noaa.gov/species/blue-crab
- ↑ Bodden, S. (2011). Callinectes sapidus blue crab. Animal Diversity Web. https://animaldiversity.org/accounts/Callinectes_sapidus/
- ↑ Noaa Fisheries. (e.d.). Blue crab. https://www.fisheries.noaa.gov/species/blue-crab
- ↑ Noaa Fisheries. (e.d.). Blue crab. https://www.fisheries.noaa.gov/species/blue-crab
- ↑ Bodden, S. (2011). Callinectes sapidus blue crab. Animal Diversity Web. https://animaldiversity.org/accounts/Callinectes_sapidus/
- ↑ Noaa Fisheries. (e.d.). Blue crab. https://www.fisheries.noaa.gov/species/blue-crab
- ↑ Bluecrab.info. (2019). Blue crab spawning. https://www.bluecrab.info/spawning.html
- ↑ Noaa Fisheries. (e.d.). Blue crab. https://www.fisheries.noaa.gov/species/blue-crab
- ↑ Texas parks & wildlife. (e.d.). Blue crab (Callincetes sapidus). https://tpwd.texas.gov/huntwild/wild/species/bluecrab/
- ↑ Texas parks & wildlife. (e.d.). Blue crab (Callincetes sapidus). https://tpwd.texas.gov/huntwild/wild/species/bluecrab/