Fara í innihald

Tímarit.is

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Timarit.is)

Tímarit.is (líka Tíðarrit.fo og Aviisitoqqat.gl) er stafrænt bókasafn í opnum aðgangi á vegum Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns þar sem er að finna stafrænar útgáfur íslenskra, færeyskra og grænlenskra tímarita og dagblaða frá 17. öld til nútímans. Elsta tímaritið í safninu er Alþingistíðindi sem kom út 1696-1697. Auk dagblaða og tímarita sem gefin eru út á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum, inniheldur vefurinn blöð gefin út af Vestur-Íslendingum á 19. og 20. öld.

Verkefnið var upphaflega styrkt af Vestnorræna ráðinu árið 2000 og var upphaflegur tilgangur þess að gera aðgengileg öll tímarit útgefin fyrir 1930. Fyrsta útgáfa vefsins kom út árið 2002 með titlinum VESTNORD. Með samningi við Morgunblaðið var ákveðið að gera það aðgengilegt á vefnum til ársins 2000 og því hefur síðan verið fylgt eftir með samningum við aðra rétthafa og samkomulagi við Blaðamannafélag Íslands til að gera fleiri dagblöð og tímarit frá 20. og 21. öld aðgengileg. Það fer eftir samkomulagi við hvern útgefanda hvað er gert aðgengilegt á vefnum. Til að mynda er hægt að skoða 24 stundir síðustu tvö ár útgáfu þess, öll tölublöð Fréttablaðsins nema þau allra nýjustu og öll tölublöð Morgunblaðsins að síðustu þremur árum undanskildum.

Í febrúar 2017 voru yfir 5 milljónir síðna og 1.079 titlar aðgengilegir á vefnum.[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Tímarit.is. „Um vefinn“. Sótt 14. febrúar 2017.