Fara í innihald

Skúli jarl Bárðarson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Skúli jarl)
Innsigli Skúla jarls.

Skúli Bárðarson (118924. maí 1240), oft kallaður Skúli jarl, var jarl og frá 1237 hertogi í Noregi. Hann var hálfbróðir Inga Bárðarsonar konungs og var gerður að jarli 1217, skömmu fyrir dauða Inga.

Skúli reyndi að gera tilkall til ríkisins en varð ekki að ósk sinni og Hákon Hákonarson var tekinn til konungs. Skúli sat í Niðarósi og stýrði þriðjungi ríkisins á móti konungi en þar sem konungurinn var aðeins tólf ára stýrði Skúli í raun öllu ríkinu fyrstu árin. Þegar Snorri Sturluson var í Noregi 1218-1220 var Skúli líklega á hátindi valdaferils síns og þeir Snorri urðu vinir og bundust traustum böndum. Þegar Snorri fór heim gaf jarlinn honum skip og margar aðrar stórgjafir en Snorri orti í staðinn kvæði um jarl og konung þegar heim kom.

Þegar Hákon konungur varð fullveðja dró smátt og smátt úr valdi Skúla og líkaði honum það illa. Samband þeirra Hákonar hafði verið ágætt framan af en fór versnandi, ekki síst eftir að Hákon flutti aðalaðsetur sitt suður til Óslóar. Þó var reynt að bæta tengsl þeirra með því að Hákon gekk að eiga Margréti, dóttur Skúla og konu hans Ragnhildar Jónsdóttur, árið 1225.

Eftir 1230 jókst ósættið á milli Skúla og Hákonar konungs enn þótt mikið væri reynt til að sætta þá og árið 1236 var hann settur út úr ríkisráðinu en var árið eftir gerður að hertoga, fyrstur Norðmanna. Þá var líka ákveðið að hann ætti ekki lengur að stýra þriðjungi landsins en fengi þó þriðjung allra skatttekna. Þetta sætti Skúli sig ekki við og í nóvember 1239 lét hann hylla sig konung á Eyraþingi þótt menn erkibiskups reyndu að koma í veg fyrir það og hann væri bannsunginn fyrir vikið.

Hann kvaddi upp her móti Hákoni konungi og hélt suður til Björgvinjar, þar sem konungur var, en hann hörfaði undan til Óslóar, þar sem þeir börðust sumarið 1240. Þar fór Skúli halloka en tókst að flýja við illan leik norður til Niðaróss. Þangað komu menn konungs um vorið að leita hans. Skúli leitaði hælis í klaustrinu í Helgisetri en konungsmenn kveiktu í klaustrinu og drápu Skúla þegar hann kom út.

Snorri Sturluson hafði verið í Noregi hjá Skúla 1237-1239. Höfðu þeir þá mikið rætt saman og er sagt að Skúli hafi sæmt Snorra jarlsheiti. Hákon leit á þetta sem landráð við sig og fól Gissuri Þorvaldssyni að senda Snorra til Noregs eða drepa hann að öðrum kosti, sem Gissur lét ekki segja sér tvisvar.

Norskir sagnfræðingar hafa á síðari árum deilt mikið um þá Skúla jarl og Hákon og hefur Skúla ýmist verið lýst sem landráðamanni, hetju og stjórnsnillingi eða mistækum og fremur veikum stjórnmálamanni