Fara í innihald

Reykjanes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Reykjanes séð ofan af Valahnúkum.
Hraun og saltfláki á yfirborði á Reykjanesi

Reykjanes er hællinn, suðvestasta táin, á Reykjanesskaga. Nesið er eldbrunnið, þar eru lág fjöll og hnúkar úr móbergi, jarðhiti, klettótt strönd og hraun runnið í sjó fram. Á Reykjanesi ber mest á Skálafelli, sem er hæsta fellið, og Valahnúkum, sem eru ystir. Mikið brotnar úr Valahnúk á hverju ári, enda brýtur hafaldan úr honum nánast í hverju roki. Yst á tánni eru svokallaðar Skemmur. Þar hefur sjór brotið hella undir efsta hraunlagið og hafa hellisþökin sums staðar brotnað niður. Þetta veldur því að þegar hvasst er og álandsvindur (suðvestan) þá brotnar hafaldan með miklum dyn inn í hellana og standa svo gosstrókar upp um götin. Er þetta oft mikið sjónarspil.

Reykjanesvirkjun
Reykjanesviti

Sunnan og austan við Valahnúk er gjá nokkur, sem nefnd er Valborgargjá. Í henni er hraungjóta nokkur eða sprunga með vatni, sem áður var volgt. Yfir hana var byggt hús eða skúr snemma á 20. öld og þar kennt sund áður en sundlaugar komu til sögu í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaga og man enn margt eldra fólk eftir því er það var að læra að synda þar. Á ströndinni utan við Valbjargargjá er Valahnúkamöl, stórgrýtt fjara þar sem allir steinarnir eru lábarðir og núnir. Margir telja að nafnið Valbjargargjá sé afbökun, því að Valahnúkur heitir líka Valabjörg, og gæti gjáin þá augljóslega heitið Valabjargagjá, sem hefði afbakast í Valbjargargjá og Valborgargjá.

Reykjanesviti

[breyta | breyta frumkóða]

Á Reykjanesi var fyrsti viti á Íslandi reistur árið 1878. Hann var uppi á Valahnúk. Árið 1896 urðu jarðskjálftar sem röskuðu undirstöðu vitans og varð þá ljóst að byggja varð nýjan vita. Hann var reistur á Bæjarfelli um 400 m frá Valahnúk. Þeirri staðsetningu fylgdi þó sá galli, að Skálafell skyggir á vitann séð úr suðaustri. Þess vegna var reistur annar lítill viti úti á Skemmum og kalla sumir hann hálfvitann. Frá Reykjanesi er óslitið haf allt til Suðurskautslandsins.

Reykjanesröst

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir Reykjanes liggur erfið siglingaleið, sem er sú fjölfarnasta við strendur landsins. Það er sundið á milli Reykjaness og Eldeyjar, sem heitir Húllið. Í Húllinu er Reykjanesröst, sem er straumþung og getur bára orðið þar mjög kröpp í vissum áttum og eftir sjávarföllum.

Reykjanes og siglingaleiðin þar fyrir hefur löngum verið skeinuhætt fyrir sæfarendur. Eitt mesta slysið þar varð þann 28. febrúar árið 1950 er olíuskipið Clam strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks í suðvestan hvassviðri. 50 manns voru í áhöfn, breskir yfirmenn en meirihlutinn Kínverjar. Hluti áhafnarinnar, eða 31 maður, fóru í björgunarbáta sem ýmist brotnuðu við skipshlið eða hvolfdi í briminu. Af þessum 31 fórust 27 manns en 4 mönnum skolaði upp í klettana þaðan sem þeim var bjargað. Þeim 19 mönnum sem héldu kyrru fyrir um borð í skipinu var öllum bjargað með fluglínutækjum af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði í spón á staðnum innan skamms. Þessi atburður var rótin að skáldsögunni Strandið eftir Hannes Sigfússon, en hann var aðstoðarvitavörður í Reykjanesvita þegar þessir atburðir gerðust.

Betur fór hins vegar þegar nýsköpunartogarinn Jón Baldvinsson RE strandaði skammt austan litla vitans á Reykjanesi í endaðan mars 1955. Togarinn sigldi á fullri ferð upp í stórgrýtisurð undir hátt í 40 metra háu bjargi. Björgunarsveitinni Þorbirni auðnaðist þá að bjarga allri áhöfn togarans, 42 mönnum, með fluglínutækjum og er þetta fjölmennasta björgun úr strönduðu íslensku skipi.