Memorial
Memorial Мемориал | |
---|---|
Stofnun | 28. janúar 1989 |
Gerð | Óháð samtök, mannréttindasamtök |
Lögfræðileg staða | Bönnuð með lögum (2021) |
Höfuðstöðvar | Moskvu, Rússlandi |
Lykilmenn | Andrej Sakharov (1921–1989), Arseníj Rogínskíj (1947–2017), Sergej Kovalev (1930–2021) |
Vefsíða | memo.ru |
Verðlaun | Nansen-verðlaunin (2004) Sakharov-verðlaunin (2009) Friðarverðlaun Nóbels (2022) |
Memorial (rússneska: Мемориал) eru alþjóðleg mannréttindasamtök sem voru starfræk í Rússlandi. Samtökin voru stofnuð í Sovétríkjunum á níunda áratugnum til þess að halda utan um og kortleggja pólitíska kúgun, meðal annars með því að safna saman listum yfir fólk sem hafði verið sent í gúlagið eða tekið af lífi í hreinsununum miklu. Eftir upplausn Sovétríkjanna hafa samtökin verið leiðandi í mannréttindabaráttu í rússneska sambandsríkinu.[1]
Samtökin hafa á síðari árum ítrekað orðið fyrir árásum og skemmdarverkum. Árið 2009 var meðlimi samtakanna, Natalíu Estemírovu, rænt frá heimili sínu í Grosní og hún fannst síðar myrt í Ingúsetíu.[2] Árið 2018 var forstöðumaður Memorial, Ojúb Títíjev, handtekinn fyrir vörslu fíkniefna en stuðningsmenn hans héldu því fram að efnunum hefði verið komið fyrir á honum og hann hafður fyrir rangri sök. Seinna á sama ári var kveikt í skrifstofu samtakanna í Ingúsetíu.[3]
Þann 28. desember 2021 dæmdi Hæstiréttur Rússlands Memorial til að hætta starfsemi sinni fyrir að brjóta gegn lögum um starfsemi útsendara erlendra aðila í Rússlandi.[4] Daginn eftir var systursamtökum Memorial, Memorial-mannréttindamiðstöðinni, einnig gert að leggja niður starfsemi. Samtökin höfðu verið lagalega skilgreind af stjórnvöldum sem útsendarar erlendra aðila frá árinu 2014, sem erfiðaði starfsemi þeirra verulega. Krafan um lokun Memorial-mannréttindamiðstöðvarinnar byggðist einnig á stuðningi þeirra við réttindi Votta Jehóva í Rússlandi, sem skilgreindir eru sem öfgahópur þar í landi.[5] Þegar Memorial var gert að hætta starfsemi voru samtökin elstu mannréttindasamtök í landinu.
Memorial-samtökin hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 2022 ásamt hvítrússneska mannréttindafrömuðinum Ales Bjaljatskí og úkraínsku mannréttindasamtökunum Miðstöð borgaralegs frelsis fyrir að sýna fram á mikilvægi þess að halda gagnrýni á valdhafa á lofti og vernda grundvallarréttindi borgara og fyrir viðleitni sína til að að skrásetja stríðsglæpi, valdníðslu og mannréttindabrot.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Dagný Hulda Erlendsdóttir (28. desember 2021). „Mannréttindasamtökum í Rússlandi gert að hætta“. RÚV. Sótt 29. desember 2021.
- ↑ Kolbeinn Þorsteinsson (21. júlí 2009). „Mannréttindafólk myrt“. Dagblaðið Vísir. bls. 12.
- ↑ „Kveiktu í skrifstofu mannréttindasamtaka“. mbl.is. 17. janúar 2018. Sótt 29. desember 2021.
- ↑ Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (28. desember 2021). „Hæstiréttur Rússlands gerir elstu mannréttindasamtökunum að hætta starfsemi“. Vísir. Sótt 29. desember 2021.
- ↑ Samúel Karl Ólason (29. desember 2021). „Öðrum mannréttindasamtökum gert að hætta í Rússlandi“. Vísir. Sótt 29. desember 2021.
- ↑ „Hljóta friðarverðlaun Nóbels“. mbl.is. 7. október 2022. Sótt 7. október 2022.