Lai Ching-te
- Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Lai, eiginnafnið er Ching-te.
Lai Ching-te | |
---|---|
賴清德 | |
Forseti Lýðveldisins Kína | |
Núverandi | |
Tók við embætti 20. maí 2024 | |
Forsætisráðherra | Cho Jung-tai |
Varaforseti | Hsiao Bi-khim |
Forveri | Tsai Ing-wen |
Varaforseti Lýðveldisins Kína | |
Í embætti 20. maí 2020 – 20. maí 2024 | |
Forseti | Tsai Ing-wen |
Forveri | Chen Chien-jen |
Eftirmaður | Hsiao Bi-khim |
Forsætisráðherra Lýðveldisins Kína | |
Í embætti 8. september 2017 – 14. janúar 2019 | |
Forseti | Tsai Ing-wen |
Forveri | Lin Chuan |
Eftirmaður | Su Tseng-chang |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 6. október 1959 Wanli, Taívan |
Stjórnmálaflokkur | Lýðræðislegi framfaraflokkurinn |
Maki | Wu Mei-ju (g. 1986) |
Börn | 2 |
Háskóli | Háskóli Taívans Cheng Kung-háskóli Harvard-háskóli |
Starf | Stjórnmálamaður |
Lai Ching-te (kínverska: 賴清德; pinyin: Lài Qīngdé; Tâi-lô: Luā Tshing-tik; f. 6. október 1959), einnig þekktur sem William Lai, er taívanskur stjórnmálamaður og núverandi forseti Lýðveldisins Kína á Taívan.
Lai er meðlimur í Lýðræðislega framfaraflokknum, flokki sem aðhyllist sjálfstæði Taívans og er á móti möguleikanum á því að Taívan gangist undir stjórn Alþýðulýðveldisins Kína á meginlandinu. Lai hefur verið varaforseti Lýðveldisins Kína frá árinu 2020 og var forsætisráðherra í stjórn Tsai Ing-wen frá 2019 til 2017. Hann var kjörinn forseti í kosningum Taívans árið 2024.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Lai Ching-te var varaforseti Lýðveldisins Kína í forsetatíð Tsai Ing-wen frá árinu 2020 til ársins 2024. Hann hefur orð á sér fyrir að hafa enn sterkari skoðanir um sjálfstæði Taívans en Tsai. Lai vakti reiði stjórnvalda í Alþýðulýðveldinu Kína á meginlandinu árið 2023 þegar hann hafði viðkomu í Bandaríkjunum á leið í heimsókn til Paragvæ.[1]
Lai var frambjóðandi Lýðræðislega framfaraflokksins í forsetakosningum Taívans árið 2024. Í kosningabaráttunni hélt Lai áfram boðskap fráfarandi forsetans Tsai Ing-wen um að verja ætti lýðræðislega stjórnarhætti á Taívan og varðveita sjálfstæði landsins. Stjórnvöld í Kína, sem líta á Taívan sem óaðskiljanlegan hluta kínverska ríkisins, hafa brugðist illa við orðræðu Lai og flokks hans og hafa kallað Lai „hættulegan aðskilnaðarsinna“.[2]
Lai vann kosningarnar þann 13. janúar 2024 með 40% atkvæða gegn 33,5 prósentum sem Hou Yu-ih, frambjóðandi Kuomintang, hlaut.[3] Í sigurræðu sinni eftir kosningarnar sagði Lai niðurstöðuna vera sigur fyrir öll lýðræðisríki heims.[4] Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Yoko Kamikawa, utanríkisráðherra Japans, óskuðu Lai til hamingju með sigurinn. Þetta reitti stjórnvöld í Kína mjög til reiði, þar sem þau litu á óskirnar sem afskipti af kínverskum innanríkismálum.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Hugrún Hannesdóttir Diego (19. ágúst 2023). „Kínverjar halda heræfingar vegna millilendingar varaforseta Taívan í Bandaríkjunum“. RÚV. Sótt 16. janúar 2024.
- ↑ Hallgrímur Indriðason (13. janúar 2024). „Varaforseti Taívan með sigurinn vísan í forsetakosningunum“. RÚV. Sótt 16. janúar 2024.
- ↑ „Gagnrýnandi Rauða-Kína sigrar á Tævan“. Varðberg. 14. janúar 2024. Sótt 16. janúar 2024.
- ↑ Rafn Ágúst Ragnarsson (13. janúar 2024). „Lai Ching-te kjörinn forseti í Taívan“. Vísir. Sótt 16. janúar 2024.
- ↑ Oddur Þórðarson (15. janúar 2024). „Kínversk stjórnvöld óánægð með hamingjuóskir til nýkjörins forseta Taívan“. RÚV. Sótt 16. janúar 2024.
Fyrirrennari: Tsai Ing-wen |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |