Fara í innihald

Femínismi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Kvenfrelsisstefna)
Kröfuganga kvenna í Washingtonborg í Bandaríkjununm í ágúst 1970 við upphaf annarrar bylgju femínisma

Femínismi er samheiti yfir ýmsar pólitískar og hugmyndafræðilegar stefnur, þar sem sóst er eftir og barist fyrir jafnrétti kynjanna í víðum skilningi. Meðal þess sem greinir á eru mismunandi skoðanir á því hvað ójafnrétti er, hvernig það lýsir sér og hvernig skuli unnið gegn því. Meðal algengra baráttumála femínista eru barátta fyrir jöfnum launum kynjanna, barátta gegn mansali, vændi, útlitsdýrkun og svonefndri „klámvæðingu“ samfélagsins, barátta fyrir rétti til þungunarrofs (fóstureyðinga) og rétti kvenna til menntunar, atvinnu og annarra tækifæra til jafns við karla og barátta fyrir jöfnum áhrifum kynjanna í stjórnmálum og viðskiptum.

Á heimasíðu Femínistafélagsins er skilgreining á femínista:

„Femínisti er manneskja sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“

Tvær grunnhugmyndir femínismans

[breyta | breyta frumkóða]

Margir angar hafa sprottið út frá femínisma. Allir þessir angar eiga það þó sameiginlegt að byggja á annarri tveggja grunnhugmynda femínsmans. Þessar tvær grunnhugmyndir hafa ekki vakið jafn mikla umræðu alls staðar í heiminum en í Svíþjóð hefur umræðan um femínisma mjög tekið mið af þessum tveimur ólíku sjónarmiðum. Annars vegar er um að ræða þá afstöðu að kynin séu ólík með áherslu á líffræðilegan mun kynjanna. Hins vegar þá afstöðu að kynin séu sama tegund, burtséð frá hinum augljósa líffræðilega mun kynjanna.

Áhersla á líffræðilegan mun kynjanna

[breyta | breyta frumkóða]

Þetta sjónarmið femínisma tekur mið af þeim líffræðilega mun sem er á kynjunum. Hér er gengið út frá því að konur og karlar séu í eðli sínu ólík. Á þeim sé líffræðilegur munur sem að gerir þau mjög ólík og hefur gífurlega félagslega þýðingu. Mannskepnan er mótuð af skiptingu vinnunnar í því samfélagi sem hún lifir í, uppeldi og kynferði. Konur eru því mótaðar af því hlutverki sínu að fæða börn. Þær sinna því öðrum störfum en mennirnir og hafa því aðra reynslu en þeir. Þær gefa hins vegar jafn mikið af sér til samfélagsins og eru þar af leiðandi jafn mikils virði og karlarnir.

Aðalpunkturinn hér er því að ná jafnrétti með því að hífa náttúrulega eiginleika konunnar upp á sama stall eiginleika karla. Þær vekja athygli á kynjamuninum því að þær vilja halda honum. Mikil áhersla er hér á móðurhlutverkið.

Áhersla á að konur og karlar séu eins

[breyta | breyta frumkóða]

Þetta sjónarmið femínismans gengur út á að konur og karlar séu í grundvallaratriðum eins, fyrir utan hinn augljósa líffræðilega mun. Þessi munur er álitinn lítilvægur. Hér er litið svo á að sá munur sem að er á kynjunum í samfélaginu sé félagslega skapaður og þar með menningarbundinn. Áherslan hér er því á umhverfið í stað líffræðinnar. Kynin eiga því að njóta sömu tækifæra í lífinu og vera jöfn á öllum stigum samfélagsins. Hér er þess vegna ekki tekið tillit til sameiginlegrar reynslu kvenna.

Femínismahreyfingar sem byggja á því sjónarmiði að kynin séu eins eru ríkjandi í dag. Hins vegar byggði til dæmis Kvennalistinn á Íslandi á sjónarmiðinu um líffræðilegan mun kynjanna þegar hann var og hét.

Saga femínismans erlendis og á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Barátta gegn kynbundnu óréttlæti á sér líklega eins langa sögu og kynbundna óréttlætið sjálft. Femínísk kvenréttindabarátta er þó yfirleitt álitin hefjast á 19. öld og miðað við þrjár „bylgjur“ femínismans:

Fyrsta bylgjan

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta bylgjan miðar við nítjándu öld og fyrstu ár eða áratugi þeirrar tuttugustu. Hún hófst með baráttu gegn nauðungarhjónaböndum, að eiginkonan (og börnin) væri skoðuð sem eign eiginmannsins og þróaðist yfir í baráttu fyrir kosningarétti, jöfnum erfðarétti og öðrum pólitískum réttindum. Á Vesturlöndum skilaði þessi bylgja miklum framförum og er nærtækt að nefna kosningaréttinn og önnur lagaleg réttindi í því samhengi.

Fyrsta bylgjan á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Seint á 19. öld var Bríet Bjarnhéðinsdóttir áberandi sem leiðtogi íslenskrar kvenréttindabaráttu. Undir hennar forystu efndu konur til kvennaframboða og náðu góðum árangri í sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík. Um sama leyti var Kvenréttindafélag Íslands stofnað. Jafnframt því að brjótast til réttinda í stjórnmálum gerðu konur sig gildandi í líknarstarfi og þótt það teljist ekki beint til réttindabaráttu hefur það líklega aukið veg þeirra félagslega. Fyrsta konan sem komst á Alþingi var Ingibjörg H. Bjarnason árið 1922. Auður Auðuns lauk fyrst íslenskra kvenna lögfræðinámi á Íslandi árið 1929 og sat fyrst íslenskra kvenna sem borgarstjóri Reykjavíkur árið 1959 - 1960 ásamt Geir Hallgrímssyni.

Önnur bylgjan

[breyta | breyta frumkóða]

Önnur bylgja femínismans hófst á fyrri hluta sjöunda áratugarins og varði frameftir níunda áratugnum. Hún hélst mjög í hendur við almenna pólitíska vakningu meðal ungs fólks, bæði vinstriróttækni og hugsjónir hippanna. Á þessum árum urðu margar undirtegundir femínismans til í andstöðu við frjálslynda, borgaralega femínismann.

Önnur bylgjan á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi eru mest áberandi einkenni annarrar bylgjunnar líklega annars vegar Rauðsokkahreyfingin á 8. áratugnum, sem gekk hart fram í margvíslegri gagnrýni á ríkjandi viðhorf karlaveldisins og hins vegar Kvennalistinn á 9. áratugnum, sem bauð fram í kosningum, náði nokkrum konum á þing og setti um leið þrýsting á aðra flokka að fjölga konum á sínum framboðslistum. Árangurinn varð sá að auka mjög vægi kvenna í stjórnmálum miðað við það sem áður var. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sat sem þingkona Kvennalistans 1991-94.

Þriðja bylgjan

[breyta | breyta frumkóða]

Þriðja bylgja femínismans hófst á tíunda áratugnum og stóð yfir til 2012, með tilkomu fjórðu bylgjunnar. Hún reis sem eins konar svar við því sem annarri bylgjunni hafði ekki tekist. Í henni ríkir andúð á eðlishyggju, hún er fjölmenningarlegri en fyrri bylgjurnar tvær, beinir kastljósi sínu meira að kynferðisofbeldi, mansali og staðalmyndum og er borgaralegri en rauðsokkuhreyfingin á sjöunda áratugnum.

Þriðja bylgjan á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi er Femínistafélag Íslands líklega það þekktasta við þriðju bylgjuna. Það hefur aftur tekið femínisma á dagskrá í umræðunni, bæði með hefðbundnum og óhefðbundnum aðferðum, barist gegn vændi, klámi, mansali, útlitsdýrkun og fleiru sem femínistar álíta einkenni karlaveldis eða kvennakúgunar. Þá hefur barátta gegn kynbundnum launamun verið ofarlega á baugi, og hafa stéttarfélögin tekið þátt í henni. Þessu tengist líka að Háskóli Íslands hóf kennslu í kynjafræði.

Undirtegundir femínisma

[breyta | breyta frumkóða]

Sú gagnrýni á „hreinræktaðan“ femínisma hefur oft heyrst, að hann gagnist fyrst og fremst þeim konum sem hafa félagslegt forskot að öðru leyti en kynferðinu — það er að segja, einkum gagnkynhneigðum vestrænum konum í yfirstétt eða efri millistétt. „Venjulegur“ frjálslyndur femínismi sé borgaraleg stefna og hugmyndafræði og gagnist borgarastéttinni best, það er að segja kvenkyns hluta hennar. Af þessu hefur leitt að ýmsar undirtegundir hafa orðið til, þar á meðal þessar:

  • Svartur femínismi eða womanismi er upprunninn meðal svartra kvenna í Bandaríkjunum, sem sáu sér ekki hag í því að berjast bara fyrir rétti sem konur, því þeim yrði eftir sem áður mismunað sem svertingjum. Svartur femínismi berst því ekki aðeins gegn kynbundnu ójafnrétti heldur jafnframt gegn rasisma og stéttaskiptingu.
  • Sósíalískur femínismi og marxískur femínismi líta á kynbundið ójafnrétti sem náskylt stéttaskiptingu og að hvorugt verði upprætt nema í samhengi við hitt. Sósíalískir/marxískir femínistar hafa notað slagorðið „Engin stéttabarátta án jafnréttisbaráttu, engin jafnréttisbarátta án stéttabaráttu.“
  • Einstaklingshyggju-femínismi kennir að konur eigi að ná jafnrétti hver fyrir sig á eigin verðleikum og að sértækar aðgerðir (eins og kynjakvótar) eða samstaða kvenna séu óþarfi, ef ekki til tjóns.
  • Lesbískur femínismi snýst um að ekki aðeins skuli konur verða jafnréttháar körlum, heldur skuli samkynhneigðar konur vera jafnréttháar gagnkynhneigðum konum — eða, öllu heldur, jafnréttisbarátta samkynhneigðra skuli vera tengd jafnréttisbaráttu kynjanna.
  • Trans-femínismi varð til þegar trans fólki þótti það verða útundan í lesbíska femínismanum. Trans-femínismi bætir því jafnréttisbaráttu trans fólks við jafnréttisbaráttu kynjanna og samkynhneigðra.
  • Anarka-femínismi er hliðargrein við anarkismann og lítur svo á að ójafnrétti kynjanna sé hluti af almennu ójafnrétti í samfélaginu; karlaveldið sé hluti af stigveldi innan samfélagsins ásamt ríkisvaldi, kapítalisma og öðrum tegundum valds og afnám alls þessa valds sé það sem stefna skuli að.
  • Umhverfis-femínismi er hliðargrein við umhverfisverndarstefnu og tengir drottnun karla yfir konum við drottnun mannsins yfir náttúrunni. Hann kennir einnig að firring iðnaðarsamfélagsins hafi ýtt konunni út á jaðarinn eða fært hana skör neðar en karlinn.
  • Friðarsinna-femínismi tengir réttindabaráttu kvenna við baráttu gegn stríði og öðru ofbeldi. Þá er annars vegar bent á að konur (og börn) verði verr fyrir barðinu á ofbeldi en karlar á ófriðartímum og hins vegar að konur séu friðgjarnari en karlar að upplagi og aukin áhrif þeirra geti temprað ófrið eða afstýrt honum.
  • Pró-sex femínismi heldur því fram að kynferðislegt frjálslyndi sé hluti af kynfrelsi og félagslegri frelsun kvenna og álítur borgaralegan femínisma vera teprulegan þegar kynlíf er annars vegar. Pró-sex femínistar berjast einnig hart gegn ritskoðun á til dæmis klámi.
  • Maud Euduards, Fjörbjuden Handling. Om kvinnors organisering och feministisk teori (Kristianstad, 2002).
  • Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, „Outside, muted, and different: Icelandic women´s movements and their notions of authority and cultural separateness“, The anthropology of Iceland, red. Paul Durrenberger & Gísli Pálsson (Iowa, 1989).
  • Samtök um Kvennalista, Stefnuskrá Kvennalistans (Reykjavík, 1983).