Ferdinand 3. keisari
Ferdinand 3. (13. júlí 1608 – 2. apríl 1657) var keisari hins Heilaga rómverska ríkis frá 15. febrúar 1637 til dauðadags. Hann var elsti sonur Ferdinands 2. af ætt Habsborgara.
Þegar Wallenstein var myrtur 1634 var Ferdinand gerður að herstjóra keisarahersins í Þrjátíu ára stríðinu og ásamt frænda sínum Ferdinand kardinála tókst honum að vinna sigur á sænska hernum í orrustunni við Nördlingen. Hann leiddi friðarviðræður keisaradæmisins við þýsku mótmælendafurstana 1635. Þegar hann tók við sem keisari hugðist hann reyna að semja um frið við Svía og Frakka en tókst ekki og stríðið hélt því áfram í ellefu ár. 1644 gaf hann þýsku furstadæmunum leyfi til að reka sjálfstæða utanríkisstefnu og minnkaði þannig völd keisarans í Þýskalandi. Vestfalíufriðurinn 1648 dró svo enn úr völdum hans með því að staðfesta að trú furstans væri trú ríkisins (cuius regio, eius religio) og staðfesti sjálfstæði Hollands, Sviss, Savoja, og ítölsku hertogadæmanna Mílanó, Genúu, Mantúu, Toskana, Lucca, Módena og Parma, frá keisaradæminu.
Fyrirrennari: Ferdinand 2. |
|
Eftirmaður: Leópold 1. |