Fara í innihald

David Trimble

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
David Trimble
David Trimble árið 2018.
Fyrsti ráðherra Norður-Írlands
Í embætti
1. júlí 1998 – 14. október 2002
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurIan Paisley (2007)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. október 1944
Bangor, Norður-Írlandi, Bretlandi
Látinn25. júlí 2022 (77 ára) Belfast, Norður-Írlandi, Bretlandi
ÞjóðerniBreskur (norður-írskur)
StjórnmálaflokkurSambandsflokkur Ulster (fyrir 1973; 1978–2005)
Íhaldsflokkurinn (2007–)
MakiHeather McComb (1968–1976)
Daphne Orr (1978–)
Börn4
HáskóliDrottningarháskólinn í Belfast
StarfLögfræðingur, kennari, stjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1998)

William David Trimble, Trimble barón (15. október 1944 – 25. júlí 2022) var norður-írskur stjórnmálamaður sem var fyrsti ráðherra heimastjórnar Norður-Írlands, fyrstur manna, frá 1998 til 2002. Trimble var leiðtogi Sambandsflokks Ulster, sem aðhyllist áframhaldandi aðild Norður-Írlands að breska konungdæminu, frá 1995 til 2005. Árið 1998 var Trimble, ásamt John Hume, sæmdur friðarverðlaunum Nóbels fyrir að vinna að gerð Föstudagssáttmálans, sem batt enda á átökin á Norður-Írlandi milli sambandssinna og lýðveldissinna.[1]

David Trimble fæddist í bænum Bangor á Norður-Írlandi árið 1944. Hann gekk í Drottningarháskólann í Belfast og útskrifaðist þaðan með BA-gráðu í lögfræði árið 1968.[2] Á áttunda áratugnum var Trimble virkur í baráttusamtökum norður-írskra mótmælenda sem nefndust Framvörðurinn (e. Vanguard) og börðust gegn nánari tengslum Norður-Írlands við írska lýðveldið. Eftir að Framvörðurinn var leystur upp árið 1978 gekk Trimble í Sambandsflokk Ulster og var kjörinn einn af fjórum riturum flokksins.[2]

Trimble var kjörinn á breska þingið árið 1990 og var kjörinn formaður Sambandsflokks Ulster árið 1995. Á þeim tíma var Trimble talinn meðal harðlínumanna í flokknum. Áður en hann var kjörinn á þing kenndi hann við lögfræðideild Drottningarháskólans í Belfast.[3]

Stuttu eftir að vera kjörinn til formanns varð Trimble fyrsti leiðtogi Sambandsflokks Ulster í 30 ár til að eiga fund með forsætisráðherra írska lýðveldisins í Dyflinni.[4] Árið 1997 varð Trimble jafnframt fyrsti leiðtogi írskra sambandssinna frá skiptingu Írlands árið 1921 sem féllst á að eiga samningaviðræður við Sinn Féin, flokk lýðveldissinna.[5]

Trimble leiddi Ulster-sambandssinna í samningaviðræðum allra flokka sem hófust 1997, en ræddi þó aldrei augliti til auglitis við Gerry Adams, formann Sinn Féin. Viðræðurnar leiddu til undirritunar Föstudagssáttmálans þann 10. apríl 1998, en með honum var fallist á fyrirkomulag þar sem sambandssinnar og lýðveldissinnar fengu að deila völdum í heimastjórn Norður-Írlands.[2] Samningurinn var samþykktur með 71% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 22. maí 1998.[6]

Eftir að samningurinn tók gildi var Trimble kjörinn á þing Norður-Írlands þann 25. júní 1998 og var síðan kjörinn fyrsti ráðherra heimastjórnar Norður-Írlands þann 1. júlí.[6] Ráðherratíð Trimble einkenndist af deilum um það hvernig afvopnunarferli tímabundna írska lýðveldishersins skyldi háttað. Meðal annars sagði Trimble af sér sem fyrsti ráðherra þann 1. júlí árið 2001 vegna pattstöðu í viðræðum við írska lýðveldisherinn um eyðingu vopna þeirra í samræmi við samninginn,[7][8] en var endurkjörinn þann 5. nóvember sama ár.

Norður-írska heimastjórnin var leyst upp þann 14. október árið 2002 vegna innbyrðis deilna.[9] Trimble hafði farið fram á að meðlimum Sinn Féin yrði vísað úr stjórninni vegna ásakana um að þeir hefðu látið viðkvæmar upplýsingar renna til forystumanna írska lýðveldishersins og hafði hótað að segja annars af sér.[10] Norður-Írland fékk ekki heimastjórn aftur fyrr en árið 2007. Í kosningum árið 2005 galt Sambandsflokkur Ulster afhroð og Trimble sjálfur datt út af breska þinginu. Hann sagði í kjölfarið af sér sem formaður flokksins. Þann 11. apríl 2006 gekk Trimble á lávarðadeild breska þingsins sem „Trimble barón af Lisnagarvey í Antrim-sýslu“.[11]

Árið 2007 tilkynnti Trimble að hann hefði sagt skilið við Ulster-sambandsflokkinn og gengið í Íhaldsflokkinn til þess að geta haft meiri áhrif í breskum stjórnmálum.[12] Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild Bretlands að Evrópusambandinu árið 2016 studdi Trimble útgöngu úr ESB.[13]

Trimble lést eftir stutta sjúkdómslegu þann 25. júlí árið 2022.[14]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Friðarverðlaunin til N-Írlands“. Dagur. 17. október 1998. Sótt 9. janúar 2020.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Obiter Dicta“ (PDF) (enska). Warwick Law Society. Spring 2004. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 8. mars 2012. Sótt 30. júní 2010.
  3. Davíð Logi Sigurðsson (17. október 1998). „Vonast til að verðlaunin festi friðarferlið í sessi“. Morgunblaðið. Sótt 9. janúar 2020.
  4. „Irish leader in U.S. for talks“. The Day. 2. nóvember 1995 – gegnum Google News.
  5. James F Clarity (18. september 1997). „Key Ulster Protestant agrees to join talks with Sinn Fein“. Tuscaloosa News – gegnum Google News Archive.
  6. 6,0 6,1 „David Trimble – Biography“. NobelPrize.org. Nobel Prize Organisation. Sótt 29. júní 2010.
  7. „The Agreement“ (PDF). Northern Ireland Office. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 3. október 2011. Sótt 3. nóvember 2011.
  8. „The long and arduous road to paramilitary decommissioning“. Belfast Telegraph. Independent News and Media. 19. júní 2009. Sótt 29. júní 2010.
  9. „Írska heimastjórnin svipt völdum“. Morgunblaðið. 15. október 2002. Sótt 14. janúar 2020.
  10. „Trimble vill síður að heimastjórnin verði leyst upp“. Morgunblaðið. 12. október 2002. Sótt 14. janúar 2020.
  11. „New working life peers unveiled“. BBC News. 11. apríl 2006. Sótt 18. apríl 2007.
  12. „Statement by the Rt. Hon. The Lord Trimble, Tuesday, 17 April 2007“. Official website. David Trimble. 17. apríl 2007. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. júlí 2007. Sótt 17. apríl 2007. „Consequently I have decided to join the Conservatives.“
  13. Sam McBride (26. mars 2016). „EU isn't working on economic grounds: Trimble“. The Newsletter. Johnston Publishing. Afrit af upprunalegu geymt þann 29 mars 2016. Sótt 14 janúar 2020.
  14. Ævar Örn Jósepsson (26. júlí 2022). „David Trimble látinn“. RÚV. Sótt 28. júlí 2022.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Fyrsti ráðherra Norður-Írlands
(1. júlí 199814. október 2002)
Eftirmaður:
Ian Paisley
(2007)