Surtarbrandur (öðru nafni mókol eða brúnkol) eru samanpressaðar plöntuleifar og er svartleitur eða dökkbrúnn. Elsti hluti berggrunnsins á Íslandi er byggður upp af hraunlögum frá tertíertímabilinu og á mörkum þeirra finnast sums staðar surtarbrandslög. Útflattir trábolir í surtarbrandslögum kallast viðarbrandur. Surtarbrandur er fremur lélegt eldsneyti miðað við erlend brúnkol og er það vegna þess að í honum er mikið af eldfjallaösku.

Surtarbrandur frá námu í Búlgaríu

Munur á steinkolum og brúnkolum felst í hlutfalli kolefnis.

Viður er 50% kolefni. Fyrsta stig steinkolamyndunar er mór, með um 60% kolefni. Þegar mórinn grefst undir fargi jarðlaga verða efnahvörf þar sem mikill hluti vatns, súrefnis, köfnunarefnis og annarra efna hverfa brott og mórinn ummyndast í brúnkol sem hafa 70% hlutfall kolefnis. Í steinkolum er 80% hlutfall kolefnis.

Surtarbrandur er oftast flokkaður í þrjár gerðir: 1) viðarbrand sem myndaður er úr trjástofnum og greinum og þar sem viðargerð hefur varðveist þó stofnar hafi flatist vegna jarðlagafargs, 2) steinbrand sem er úr smágerðum jurtaleifum, oftast lagskiptur, þéttur og stökkur og 3) leirbrand sem er dökkur eða svartur leir sem hefur tekið í sig kolakennd efni.

Á 20. öld, aðallega í lok fyrri heimsstyrjaldar, var surtarbrandur unninn á nokkrum stöðum á Íslandi: í Syðridal í Bolungarvík („Gilsnáma“), í Botni í Súgandafirði („Botnsnáma“), á tveimur stöðum í Arnarfirði (Dufansdalur og Þernudalur), í Stálfjalli (Stálfjallsnáma) á milli Barðastrandar og Rauðasands, á Tindum á Skarðsströnd („Skarðsnáma“), á tveimur stöðum á vestanverðu Tjörnesi („Hringversnáma“ og „Tungunáma“) og í Jökulbotnum í sunnanverðum Reyðarfirði.

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta
  • „Hvað eru steinkol og til hvers eru þau notuð?“. Vísindavefurinn.
  • Guðmundur Bárðarson, Um surtarbrand, Andvari, 1. Tölublað (01.01.1918), Blaðsíða 1
  • Surtarbrandur á Vestfjörðum (Skýrsla OS frá 1984,Kristinn Sæmundsson og Freysteinn Sigurðsson Geymt 10 mars 2016 í Wayback Machine
  • Mineral Resources in Iceland: Coal Mining[1]

Tenglar

breyta
  1. POKORNÝ R., FIALOVÁ V., GRÍMSSON F., KOUTECKÝ V. (2021): Mineral Resources in Iceland: Coal Mining. Cambridge Scholars Publishing, Newcastle upon Tyne, UK, ISBN 9781527567177, 315 pp..