Rúanda

land í Mið-Afríku

Rúanda er lítið landlukt land í Mið-Afríku í Sigdalnum mikla við Stóru vötnin. Það er rétt sunnan við miðbaug og á landamæri að Úganda, Búrúndí, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og Tansaníu. Rúanda liggur mjög hátt og er frjósamt, hæðótt land sem hefur verið kallað „þúsund hæða landið“ (franska: pays des mille collines). Einkenni á landfræði Rúanda eru fjöll í vestri og gresja í austri. Fjöldi vatna er í landinu. Loftslag er temprað hitabeltisloftslag með tvö regntímabil og tvö þurrkatímabil. Það er með þéttbýlustu löndum álfunnar. Íbúar Rúanda eru yfir 12,3 milljónir á 26.338 km2 lands. Ein milljón býr í höfuðborginni og stærstu borginni, Kígalí.

Lýðveldið Rúanda
Republika y'u Rwanda
Fáni Rúanda Skjaldarmerki Rúanda
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Ubumwe, Umurimo, Gukunda Igihugu (kinyarwanda)
Frelsi, samvinna, framþróun
Þjóðsöngur:
Rwanda nziza
Staðsetning Rúanda
Höfuðborg Kígalí
Opinbert tungumál kinyarwanda, franska og enska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Paul Kagame
Forsætisráðherra Édouard Ngirente
Sjálfstæði
 • frá Belgíu 1. júlí, 1962 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
144. sæti
26.338 km²
5,3
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
76. sæti
12.374.397
470/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 33,455 millj. dala (140. sæti)
 • Á mann 2.641 dalir (206. sæti)
VÞL (2019) 0.543 (160. sæti)
Gjaldmiðill rúandískur franki
Tímabelti UTC+2
Þjóðarlén .rw
Landsnúmer +250

Rúandíska þjóðin er ung og býr aðallega í dreifbýli. Meðalaldur í Rúanda er aðeins 19 ár. Íbúar Rúanda eru nánast allir af sama uppruna, Banyarwanda, en skiptast í þrjá undirhópa: Hútúa, Tútsa og Twa. Twa eru pygmíar sem búa í skóglendi og eru álitnir afkomendur frumbyggja Rúanda. Fræðimönnum ber ekki saman um uppruna mismunarins milli Hútúa og Tútsa. Sumir telja hann stafa af fyrrum ólíkum stéttum sömu þjóðar, meðan aðrir halda að Hútúar og Tútsar hafi flust til landsins sem aðskildir hópar. Kristni eru helstu trúarbrögð landsins og móðurmál flestra íbúa og það mál sem nær allir íbúar tala er kinyarwanda, en enska og franska eru líka opinber mál. Rúanda býr við forsetaræði. Núverandi forseti er Paul Kagame sem hefur gegnt því embætti frá 2000. Miðað við nágrannaríki býr Rúanda í dag við litla spillingu, en mannréttindasamtök hafa sagt frá því að stjórnarandstöðuhópum sé gert erfitt fyrir og málfrelsi takmarkað. Landið hefur búið við strangt stigveldi frá því áður en það varð nýlenda. Rúanda skiptist í fimm héruð frá 2006. Árið 2008 varð rúandska þingið það fyrsta í heiminum þar sem konur voru meirihluti þingmanna. Sú staða er aðeins í tveimur öðrum löndum heims, Bólivíu og Kúbu. Í Rúanda vinna konur í öllum starfsgreinum og aukin völd kvenna hafa meðal annars leitt til þess að forn feðraveldislög hafa verið afnumin.

Veiðimenn og safnarar settust að í landinu á steinöld og járnöld og þar á eftir komu Bantúmenn. Fyrst mynduðust ættbálkar og síðan konungsríki. Konungsríkið Rúanda var ríki þar sem Tútsakonungar lögðu aðra íbúa undir sig og ríkti frá miðri 18. öld. Landið varð hluti af Þýsku Austur-Afríku 1895, en varð að belgísku verndarsvæði eftir fyrri heimsstyrjöld. Bæði evrópsku nýlenduveldin stjórnuðu með aðstoð innlendra konunga og stefna þeirra var hliðholl Tútsum. Hútúar gerðu uppreisn árið 1959, myrtu fjölda Tútsa og stofnuðu sjálfstætt lýðveldi undir stjórn forsetans Grégoire Kayibanda. Valdarán hersins árið 1973 steypti Kayibanda af stóli og Juvénal Habyarimana tók við völdum en var áfram hliðholl Hútúum. Stjórnmálaflokkurinn Föðurlandsfylking Rúanda, sem var hliðhollur Tútsum, hóf borgarastyrjöld árið 1990. Habyarimana var myrtur í apríl 1994. Í kjölfarið fylgdi þjóðarmorðið í Rúanda, þar sem öfgamenn myrtu 500.000 til 1.000.000 Tútsa og Hútúa á um hundrað dögum. Morðæðinu lauk með sigri Föðurlandsfylkingarinnar í júlí 1994.

Efnahagslíf Rúanda hlaut mikinn skaða vegna þjóðarmorðsins 1994 en hefur styrkst síðan. Það byggist að mestu á sjálfsþurftarbúskap. Helstu landbúnaðarafurðir til útflutnings eru kaffi og te. Ferðaþjónusta fer vaxandi og er aðalútflutningsgrein landsins. Rúanda er annað tveggja landa þar sem hægt er að sjá fjallagórillur með öruggum hætti, og ferðamenn greiða háar fjárhæðir fyrir leyfi til að rekja slóðir górilla. Tónlist og dans eru stór hluti af menningu Rúsanda, sérstaklega trommutónlist og flókinn intore-dans. Hefðbundið handverk er framleitt um allt land, þar á meðal imigongo úr kúataði.

Stjórnarfar í Rúanda hefur verið miðstýrt forsetaræði með tvískipt þing þar sem Föðurlandsfylking Rúanda hefur farið með öll völd frá 1994. Landið er aðili að Afríkusambandinu, Breska samveldinu, COMESA, Samtökum frönskumælandi ríkja og Austur-Afríkusambandinu.

Heitið Rwanda (úr rwanda-rundi u Rwanda) er upphaflega heitið á frumbyggjum landsins sem nota þetta orð um sjálfa sig. Uppruni orðsins er óviss og kemur fyrir í nokkrum afbrigðum, þar á meðal Ruanda um 1834. Nútímaútgáfan, Rwanda, var tekin upp sem nafn landsins, en stafsetning orðsins með „w“ virðist hafa orðið algengust eftir 1970.[1]

Á kinyarwanda er heitið borið fram /u.ɾɡwaː.nda/.

Borgarastyrjöldin

breyta

Árið 1990 varð borgarastyrjöld í Rúanda á milli þjóðarbrotanna Hútúa sem voru í ríkistjórn og Tútsa sem voru andspyrnusinnar. Tútsar voru ljósari yfirlitum og hávaxnir og þar með líkari Belgum. Hútúar eru þeldökkir og ólíkari Belgum. Hvort sem það var af þeim sökum eða öðrum höfðu Belgar gert Tútsum hærra undir höfði þegar Rúanda var nýlenda Belgíu en þegar Belgar fóru fengu Hútúar, sem eru fjölmennari, völdin. Hútúmenn ákváðu að hefna sín á Tútsum og ætluðu hreinlega að drepa alla Tútsímenn í landinu.

Í apríl 1994 var flugvél þáverandi forseta skotin niður og varð sá atburður kveikjan að þjóðarmorðinu. Útvarpsstöð sem var kölluð "Hutu power" eða "Kraftur Hútú" hafði mjög mikil áhrif á Hútúmenn og hvatti þá til þess að drepa alla Tútsa og líka Hútúmenn ef þeir voru að hýsa eða reyna að hjálpa Tútsímönnum. Vestrænar þjóðir gerðu lítið sem ekkert til þess að grípa inn í ástandið sem upp var komið og hafa margar Afríkuþjóðir fordæmt vestrænar þjóðir eftir þessi hræðilegu þjóðarmorð. Talið er að um 800 þúsund manns hafið látið lífið í þessum átökum.

Landfræði

breyta
 
Kagera-á og Ruvubu-á eru hlutar af Efri-Níl.

Rúanda er 26.338 km2 og fjórða minnsta landið á meginlandi Afríku, á eftir Gambíu, Esvatíní og Djibútí. Landið er svipað að stærð og Búrúndí, Haítí og Albanía.[2] Landið liggur hátt; lægsti punktur þess er Rusizi-á í 950 metra hæð yfir sjávarmáli.[2] Rúanda er í Mið-/Austur-Afríku og á landamæri að Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í vestri, Úganda í norðri, Tansaníu í austri og Búrúndí í suðri.[2] Það er nokkrum gráðum sunnan við miðbaug og er landlukt.[3] Höfuðborgin, Kígalí, er nálægt miðju landsins.[4]

Vatnaskil Kongófljóts og Nílar liggja í norður-suðurátt í gegnum Rúanda þar sem um 80% landsins eru á vatnasviði Nílar og 20% á vatnasviði Kongó um Rusizi-á og Tanganjikavatn.[5] Lengsta á landsins er Nyabarongo sem kemur upp í suðvestri, rennur norður, austur og suðaustur áður en hún rennur saman við Ruvubu-á og myndar Kagera-á. Kagera rennur svo norður meðfram austurlandamærunum að Tansaníu og að lokum út í Viktoríuvatn. Upptök árinnar í Nyungwe-skógi hafa verið tilnefnd sem möguleg upptök Nílar.[6] Í Rúanda eru mörg vötn. Stærsta stöðuvatnið er Kivuvatn í Albertsdal þar sem vesturlandamæri Rúanda liggja. Kivuvatn er 480 metrar á dýpt[7] og er því eitt af 20 dýpstu vötnum heims.[8] Önnur stór vötn eru Bureravatn, Ruhondovatn, Muhazi-vatn, Rweru-vatn og Ihemavatn sem er röð vatna í Akageraþjóðgarðinum í austurhluta landsins.[9]

 
Stöðuvatn og eldfjall í Virungafjöllum.

Mið- og vesturhluti Rúanda er fjalllendur og landið er stundum kallað „Pays des mille collines“ á frönsku („þúsund hæða landið“).[10] Þau eru hluti af fjöllum Albertsdals sem standa við austurgrein Sigdalsins mikla sem liggur í norður-suðurátt eftir vesturlandamærum Rúanda.[11] Hæstu tindarnir eru í Virungafjöllum í norðvestri. Hæsti tindurinn er Karisimbifjall (4.507 metrar á hæð).[12] Í vesturhluta landsins eru fjallaskógar í 1.500 til 2.500 metra hæð.[13] Í miðhluta landsins eru aðallega hæðardrög, meðan austurhlutinn eru gresjur, sléttur og mýrar.[14]

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta
 
Provinces of Rwanda

Rúanda hefur frá fornu fari búið við strangt stigveldi.[15] Fyrir nýlendustofnunina ríktu konungar Rúanda með kerfi sýslna, umdæma, hæða og hverfa.[16] Núverandi stjórnarskrá skiptir Rúanda í sýslur (intara), umdæmi (uturere), borgir, sveitarfélög, bæi, deildir (imirenge), sellur (utugari) og þorp (imidugudu). Mörk sýslna og umdæma eru sett af þinginu.[17]

Sýslurnar fimm eru millistig milli ríkisstjórnarinnar og umdæmanna og hafa það hlutverk að tryggja að stefna stjórnarinnar sé útfærð á umdæmisstigi. Rammaáætlun um valddreifingu sem sveitarstjórnaráðuneytið hefur þróað ætlar sýslunum það hlutverk að samræma stjórnsýslu sýslunnar, eftirlit og mat.[18] Yfir hverri sýslu er landstjóri, skipaður af forseta og samþykktur af öldungadeild þingsins.[19] Umdæmin bera ábyrgð á samræmingu opinberrar þjónustu og efnahagsþróun. Þau skiptast í deildir sem sjá um að veita opinbera þjónustu samkvæmt því sem umdæmið krefst.[18] Umdæmi og deildir hafa kjörin ráð og er stjórnað af framkvæmdanefnd sem ráðin skipa.[20] Sellur og þorp eru minnstu einingarnar og tengja íbúa við umdæmin.[18] Allir fullorðnir borgarar eru meðlimir í selluráði í sinni sellu, og kjósa þar framkvæmdanefnd.[20] Borgin Kígalí er sveitarfélag á sýslustigi sem sér um borgarskipulag.[18]

Núverandi skipting var teiknuð upp árið 2006 í þeim tilgangi að dreifa valdi og afnema tengingar við eldra kerfi frá tímum þjóðarmorðsins. Áður voru 12 sýslur sem tengdust stærstu borgum, en því var breytt árið 2006 í 5 sýslur sem byggjast aðallega á landfræðilegum þáttum.[21] Sýslurnar eru Norðursýsla, Suðursýsla, Austursýsla, Vestursýrla og sveitarfélagið Kígalí í miðjunni.

Menning

breyta

Íþróttir

breyta

Mikilli orku hefur verið varið í uppbyggingu íþróttastarfs í Rúanda, þar sem íþróttir eru taldar vel til þess fallnar að sameina þjóðina og græða sár borgarastyrjaldarinnar. Opinber stefna yfirvalda er að hærra hlutfall íbúa skuli æfa íþróttir en í nokkru öðru Afríkulandi.

Rúanda hefur sent íþróttamenn á alla sumarólympíuleika frá leikunum 1984. Enginn þeirra hefur náð á verðlaunapall en Mathias Ntawulikura varð 8. í 10 km hlaupi í Aþenu 2004. Sama ár hlaut Jean de Dieu Nkundabera bronsverðlaun á Ólympíuleikum fatlaðra.

Körfubolti er í miklum metum í Rúanda. Eftir 2010 hefur karlalandsliðið verið í mikilli sókn og er í hópi sterkari liða Afríku. Vinsældir hjólreiða sem íþróttar hafa líka farið vaxandi, en reiðhjól eru daglegur ferðamáti fólks í Rúanda. Tour du Rwanda er kaflaskipt hjólreiðakeppni sem upphaflega var haldin 1988 og var endurvakin árið 2000.

Knattspyrna er sú grein sem dregur að sér flesta áhorfendur. Karlalandslið Rúanda hefur einu sinni komist í úrslitakeppni Afríkumótsins, 2004 og aldrei verið nálægt því að komast í úrslitakeppni HM. Sigursælasta knattspyrnulið Rúanda er APR F.C. frá Kigali, sem vann sinn tuttugasta meistaratitil árið 2020, þrátt fyrir að vera ekki stofnað fyrr en árið 1993. Tengsl íþrótta og stjórnmála eru náin í Rúanda sem sést af því að APR er rekið af stjórnarflokknum RFP.

Tilvísanir

breyta
  1. [1]
  2. 2,0 2,1 2,2 Central Intelligence Agency (CIA) (I). „Rwanda“. The World Factbook. Afrit af uppruna á 9. janúar 2021. Sótt 12. nóvember 2015.
  3. U.S. Department of State 2004.
  4. Encyclopædia Britannica (2010). „Rwanda“. Afrit af uppruna á 30. apríl 2015. Sótt 19. nóvember 2015.
  5. Nile Basin Initiative (2010). „Nile Basin Countries“. Afrit af uppruna á 14. mars 2012. Sótt 16. nóvember 2015.
  6. BBC News (II) (31. mars 2006). „Team reaches Nile's 'true source'. London. Afrit af uppruna á 1. júní 2013. Sótt 10. nóvember 2015.
  7. Jørgensen, Sven Erik (2005). Lake and reservoir management. Amsterdam: Elsevier. ISBN 978-0-444-51678-7.
  8. Briggs, Philip; Booth, Janice (2006). Rwanda – The Bradt Travel Guide (3rd. útgáfa). London: Bradt Travel Guides. bls. 153. ISBN 978-1-84162-180-7.
  9. Hodd, Michael (1994). East African Handbook. Trade & Travel Publications. ISBN 978-0-8442-8983-0.
  10. Christophe Migeon. "Voyage au Rwanda, le pays des Mille Collines Geymt 7 apríl 2019 í Wayback Machine" (á frönsku), Le Point, 26 May 2018. Retrieved 31 July 2019.
  11. World Wide Fund for Nature (WWF) (2001). „Terrestrial Ecoregions: Albertine Rift montane forests (AT0101)“. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. desember 2004. Sótt 16. nóvember 2015.
  12. Mehta, Hitesh; Katee, Christine (2005). „Virunga Massif Sustainable Tourism Development Plan“ (PDF). International Gorilla Conservation Programme (IGCP). bls. 37. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 4. mars 2014. Sótt 13. nóvember 2015.
  13. Munyakazi, Augustine; Ntagaramba, Johnson Funga (2005). Atlas of Rwanda (franska). Oxford: Macmillan Education. bls. 7. ISBN 0-333-95451-3.
  14. Munyakazi, Augustine; Ntagaramba, Johnson Funga (2005). Atlas of Rwanda (franska). Oxford: Macmillan Education. bls. 18. ISBN 0-333-95451-3.
  15. Organization of African Unity (OAU) (2000). „Rwanda – The preventable genocide“ (PDF). The Report of International Panel of Eminent Personalities to Investigate the 1994 Genocide in Rwanda and Surrounding Events. bls. 14. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 8. september 2015. Sótt 16. nóvember 2015.
  16. Melvern, Linda (2004). Conspiracy to Murder: The Rwandan Genocide. Revised. London; New York, N.Y.: Verso Books. bls. 5. ISBN 978-1-85984-588-2.
  17. Commission Juridique Et Constitutionnelle Du Rwanda (CJCR) (26. maí 2003). „Constitution of the Republic of Rwanda“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. mars 2009. Sótt 12. nóvember 2015.
  18. 18,0 18,1 18,2 18,3 Ministry of Local Government (MINALOC), Republic of Rwanda (ágúst 2007). „Rwanda Decentralization Strategic Framework“. bls. 8. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. mars 2013. Sótt 19. nóvember 2015.
  19. Southern Province.
  20. 20,0 20,1 Ministry of Local Government (MINALOC), Republic of Rwanda (2004). „Administrative Units“. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. október 2013. Sótt 16. nóvember 2015.
  21. BBC News (I) (3. janúar 2006). „Rwanda redrawn to reflect compass“. London. Afrit af uppruna á 1. júní 2013. Sótt 10. nóvember 2015.
   Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.