Breska Indland
Breska Indland er samheiti yfir héruð á Indlandsskaga sem voru undir stjórn Breta frá upphafi 17. aldar til 1947. Saga Breska Indlands skiptist í þrjú tímabil:
- Breska Austur-Indíafélagið setti upp fjölda verslunarstaða (faktoría) á strönd Indlandsskagans frá 1612 til 1757, í samkeppni við Hollenska Austur-Indíafélagið og Franska Austur-Indíafélagið. Um miðja 18. öld voru þrír þessara staða, Madras, Bombay og Kalkútta, orðnir að stórum borgum.
- Félagsræði á Indlandi hófst þegar Breska Austur-Indíafélagið vann sigur á furstanum af Bengal í orrustunni um Plassey 23. júní 1757. Þar með hóf félagið landvinninga sem leiddu til þess að stórir hlutar Indlandsskagans voru undir stjórn þess árið 1857.
- Uppreisnin á Indlandi 1857 hófst vegna óánægju íbúa með stjórn félagsins. Breski herinn náði að kveða uppreisnina niður eftir átök sem stóðu í meira en ár. Í kjölfarið var Breska Austur-Indíafélagið leyst upp og Breska Indland gert að krúnunýlendu undir stjórn landstjóra sem fékk titilinn Varakonungur Indlands.