Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir
Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir (f. 8. ágúst 1921, dáin 26. apríl 1994) var íslensk baráttukona fyrir réttindum verkakvenna og sat á Alþingi fyrir Borgaraflokkinn.
Aðalheiður fæddist að Efri-Steinsmýri í Vestur-Skaftafellssýslu. Foreldrar hennar voru hjónin Bjarnfreður Jóhann Ingimundarson bóndi og kona hans Ingibjörg Sigurbergsdóttir. Aðalheiður var hluti af stórum systkinahópi en hún átti alls 19 systkini, Magnús Bjarnfreðsson fréttamaður var bróðir Aðalheiðar.
Aðalheiður ólst upp við kröpp kjör og naut einungis barnaskólafræðslu í fjögur ár.[1] Hún starfaði sem fiskvinnslukona í Vestmannaeyjum á stríðsárunum, starfaði á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum árið 1944-1949, var verkakona í Reykjavík 1958-1959, bréfberi í Reykjavík 1960-1963, húsfreyja í Köldukinn í Holtum 1963-1974 og verkakona í Reykjavík 1974-76.
Hún sinnti margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna og var m.a. formaður Verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum 1945-1949, sat í stjórn Sósíalistafélags Vestmannaeyja, var formaður Starfsmannafélagsins Sóknar 1976-1987 og sat í miðstjórn ASÍ um árabil. Hún var í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs 1987-1992 og í bankaráði Búnaðarbankans frá 1990-1993. Hún var kjörin alþingismaður Reykvíkinga fyrir Borgaraflokkinn árið 1987 og sat á þingi til ársins 1991.
Aðalheiður var í undirbúningsnefnd fyrir Kvennafrídaginn árið 1975 og flutti ræðu á baráttufundi kvenna á Lækjartorgi og vakti hún mikla athygli.[2]
Árið 1980 hlaut Aðalheiður riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að verkalýðsmálum. Árið 1985 kom ævisaga hennar, Lífssaga baráttukonu út, skráð af Ingu Huld Hákonardóttur sagnfræðingi.[3][4]
Tilvísanir
breyta- ↑ Merkir Íslendingar: Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Morgunblaðið. 8. ágúst 2013, (skoðað 26. maí 2019)
- ↑ Kvennasögusafn Íslands, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir á Lækjartorgi 24. október 1975[óvirkur tengill] (skoðað 26. maí 2019)
- ↑ Alþingi, Æviágrip - Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, (skoðað 26. maí 2019)
- ↑ Kvennasögusafn Íslands, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir[óvirkur tengill], (skoðað 26. maí 2019)