Þórunn Jónsdóttir á Grund

Þórunn Jónsdóttir (um 151113. desember 1593) var íslensk kona á 16. öld, mikill kvenskörungur og stórauðug. Hún bjó lengst af á Grund í Eyjafirði og er oftast kennd við þann bæ.

Þórunn var dóttir Jóns Arasonar Hólabiskups og fylgikonu hans, Helgu Sigurðardóttir. Árið 1522 ættleiddi Jón Arason fjögur af sex börnum þeirra, Ara, Björn, Magnús og Þórunni, og skyldi hún hafa jafnan arfahlut og bræður hennar, en venjulega var arfur kvenna helmingur af hlut bræðra þeirra. Tvö systkinanna, Helgu og Sigurð, ættleiddi Jón hins vegar ekki.

Þórunn giftist fyrst árið 1526 og hefur þá líklega verið 14-15 ára að aldri (raunar ber heimildum um aldur hennar ekki alveg saman en hún var fædd á árunum 1509-1512). Maður hennar var Hrafn Brandsson yngri og fékk hún í heimanmund 360 hundruð í jörðum og 60 hundruð í lausafé en Hrafn lagði til helmingi meira og voru þau því stórauðug. Hrafn var handgenginn Jóni tengdaföður sínum, sem tókst að fá hann gerðan að lögmanni. Síðan hröktu þeir Teit ríka Þorleifsson frá Glaumbæ og settust þau Hrafn og Þórunn þar að en ári síðar beið Hrafn bana er hann háði drukkinn einvígi við svein sinn. Þau áttu saman eitt barn sem dó ungt.

Árið 1533 giftist Þórunn öðru sinni Ísleifi Sigurðssyni sýslumanni og bjuggu þau stórbúi á Grund í Eyjafirði. Ísleifur dó 1548 eða 1549 og áttu þau engin börn. Þórunn var því ekkja þegar faðir hennar og bræður voru teknir af lífi í Skálholti haustið 1550. Sagt er að þegar norðlenskir vermenn héldu á Suðurnes í janúar 1551 og drápu þar Kristján skrifara og fleiri, þá hafi Þórunn á Grund búið þá út og sagt þeim að drepa alla Dani sem þeir fengju færi á. Hún var mjög handgengin föður sínum og þótti lík honum og er sagt að þegar Jón biskup var leiddur á höggstokkinn hafi hann beðið fyrir kveðju til Þórunnar sonar síns og séra Sigurðar dóttur sinnar.

Þórunn giftist í þriðja sinn 1551 Þorsteini Guðmundssyni frá Felli í Kollafirði og var hann sonur Guðmundar Andréssonar Guðmundssonar ríka Arasonar á Reykhólum. Hann var kvennagull mikið og þegar Þórunn var ekkja eftir Hrafn lögmann vildi hún giftast Þorsteini, sem þá var biskupssvein á Hólum, en fékk það ekki og var hann hrakinn þaðan. Þau giftust svo um leið og faðir Þórunnar og bræður voru horfnir af sjónarsviðinu. Þau voru einnig barnlaus en Þorsteinn hafði átt börn með nokkrum konum. Hann dó um 1570 og er sagt að nokkru síðar hafi Þórunn viljað giftast í fjórða sinn, ungum presti, en Sigurði bróður hennar hafi tekist að koma í veg fyrir það.

Á efri árum gaf Þórunn mikið af eignum sínum, bæði til skyldra og óskyldra, meira en hún mátti lögum samkvæmt. Meðal annars gaf hún börnum Þorsteins töluvert fé. Á Alþingi 1591 kröfðust bróðursynir hennar, Jón og Magnús Björnssynir, þess að hún væri svipt fjárforræði, þar sem hún væri komin yfir áttrætt, sjónlítil og veik, og var það gert en henni þó tryggt öruggt framfæri og góð þjónusta. Þessu undi hún illa og þótti mjög skapstygg og erfið viðfangs síðustu tvö árin, en hún dó 1593 hjá Magnúsi bróðursyni sínum.

Heimildir

breyta
  • „Fjármál Þórunnar á Grund. Lesbók Morgunblaðsins, 7. janúar 1928“.
  • „Þórunn á Grund. Lesbók Morgunblaðsins, 14. maí 1939“.